149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:18]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Ég býð forseta velkominn til starfa og verð að bíða þar til í 50. ræðu að fjalla frekar um ræðu hennar sem féll í störfum þingsins fyrir nokkrum dögum, það gerir maður náttúrlega ekki meðan hún situr í forsetastóli. En það er gott að forseti skyldi halda tölu á þessu, vegna þess að ég sá það í RÚV nefnilega áðan að þetta væri 49. ræðan sem ég héldi í þessu máli og ég er náttúrlega rosalega þakklátur öllum sem halda tölu á þessu og sérstaklega ríkisfjölmiðlinum sem kostar 4.000 milljónir af almannafé á ári, en ég hefði talið að í staðinn fyrir að birta svona töflur um fjölda ræðna, lengdina og fjölda andsvara, þá hefði kannski verið ráð fyrir ríkisfjölmiðil, sem er RÚV ohf., að geta um innihald í einhverjum af þeim ræðum sem menn hafa verið að tína upp númerin á, í staðinn fyrir að vera með einhverjar töflur á heimasíðu fjölmiðilsins sem líta út eins og stigatafla í Eurovision.

En það sem ég ætlaði að ræða í þessari 49. ræðu minni er að mig langar til að vitna aðeins til orða eins af þeim ágætu mönnum sem hafa verið að gjalda varhuga við innleiðingu orkupakka þrjú. Það er maður sem hefur reynslu af innleiðingu númer eitt og tvö, sem hann var reyndar á móti og er staðfastur í því að vera á móti þessum einnig vegna þess að hann er búinn að sjá þróunina. Þetta er fyrrverandi hv. þingmaður og hæstv. ráðherra, Ögmundur Jónasson. Hann segir, með leyfi forseta, þetta er tekið af heimasíðu hans:

„Í þessari stuttu umsögn vil ég leggja áherslu á félagslegar forsendur málsins og vara við því að einblína um of á þennan tiltekna pakka heldur skoða þá vegferð sem Evrópusambandið boðaði um miðjan tíunda áratug síðustu aldar um markaðsvæðingu raforkunnar. Alltaf hefur legið ljóst fyrir hvert vegferðinni er heitið og eru orkupakkarnir svokölluðu aðeins vörður á þessari leið sem mun enda í samræmdu evrópsku raforkukerfi sem starfar á markaðsvísu undir miðstýðu eftirliti.

Markaðsvæðing raforkunnar og vatnsins hefur verið óvinsæl í Evrópu eins og einkavæðing grunnþjónustunnar almennt. Við svo búið hefur verið brugðið á það ráð að skera pylsuna niður í sneiðar eða pakka og hefur viðkvæðið þá verið hið sama: Þetta er ekki verri biti en sá fyrri. En það er lokamarkið sem þarf að horfa á — vegferðina alla — og það er markaðsvæðing og í kjölfarið einkavæðing þessa geira. Samhliða markaðsvæðingunni er síðan ætlunin að tryggja hlut almennings með neytendavernd og refsingum ef samkeppnisskilmálum er ekki fullnægt. Með öðrum orðum, allt traust er sett á markaðinn og mekanisma hans.

Þau okkar sem andvíg voru þessari þróun lögðust gegn samþykkt fyrsta og annars orkupakka og þykir mér ekki síður rökrétt að leggjast gegn samþykkt þessa pakka svo og þeirra sem fylgja í kjölfarið.

Smám saman missum við sem samfélag forræðið yfir orkunni, auðlindum og vinnslu, og mun gangverk markaðarins stýra för, enda talað fyrir málinu á þann veg af hálfu ráðherra og á vef Stjórnarráðsins.

Þegar bent hefur verið á að hin miklu fyrirheit um lækkun orkuverðs hafi ekki skilað sér við fyrri pakka er okkur sagt af hálfu stjórnvalda að „söluhluti“ raforkuverðsins hafi ekki hækkað og aðrir þættir hljóti að lækka með komandi samkeppni!

Haft hefur verið á orði í umræðunni á Alþingi að utanaðkomandi þrýstingur á orkugeirann komi til með að verða „hagrænn en ekki samkvæmt erlendu valdboði.“ Þetta er mergurinn málsins. Hið erlenda valdboð gengur út á að markaðsvæða þennan geira, tengja hann lögmálum framboðs og eftirspurnar. Ég tel að tryggja eigi hag almennings í gegnum eignarhaldið en ekki í gegnum markaðinn fyrir tilstilli tilheyrandi eftirlitsstofnana, þ.e. þeirra sem sinna samkeppniseftirliti og neytendavernd.

Ég heiti á alla félagslega þenkjandi alþingismenn að taka höndum saman við öll þau sem nú vilja sporna gegn þessari óheillaþróun. Ef þau sem áður studdu málið telja að nú stefni að þeirra mati í ófyrirséð óefni þá ber að taka því fagnandi.

Með markaðsvæðingunni er verið að byggja inn í kerfið hvata sem eru varasamir: Að virkja sem mest, fyrir sem mestan arð.

Enn eigum við megnið af fyrirtækjum og stofnunum í orkugeiranum — þar erum við á öðru róli en Evrópa. Það verður hins vegar ekki lengi ef þessi vegferð verður ekki stöðvuð með öllum ráðum — nú þegar færi gefst.“

Þetta segir Ögmundur Jónasson, hv. fyrrverandi alþingismaður og hæstv. ráðherra, í nýlegri færslu á heimasíðu sinni.