149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:23]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil grípa boltann þar sem hann sleppti honum þegar hann var að fjalla um fréttaflutning af þeim umræðum sem hér fara fram um hinn svokallaða þriðja orkupakka. Ég minni á að þetta er mál sem snertir stjórnarskrá, ég minni á að þetta er mál sem snertir mikilvæg alþjóðleg samskipti, sérstaklega samskipti okkar við Evrópusambandið, um farveg Evrópska efnahagssvæðisins. Ég vil minna á að hér eru undir orkuauðlindir þjóðarinnar og spurning um forræði yfir þeim, hvort við höldum þeim eða hvort við værum að framselja að umtalsverðu leyti forræði yfir þeim. Því er lýst hér í álitsgerð lögfræðilegra ráðunauta ríkisstjórnarinnar að erlendir aðilar muni fá a.m.k. óbein áhrif á skipulag, ráðstöfun og nýtingu mikilvægra orkuauðlinda þjóðarinnar.

Ég spyr um álit hv. þingmanns á skyldum Ríkisútvarpsins í þessum efnum, sérstaklega, vegna þess að hann nefndi að Ríkisútvarpið þiggur gífurlegar fjárhæðir á fjárlögum. Hann nefndi 5.000 milljónir. Þær eru hugsanlega nær 5.000 en 4.000, látum það liggja milli hluta. En á það að vera þannig að fréttaflutningur þessa miðils eigi að takmarkast við tölulegar upplýsingar um lengd og fjölda og einhverjar slíkar upplýsingar? Það er auðvitað mjög fljótgert, frú forseti, að fara yfir röksemdir þeirra sem styðja þetta mál. Það er neytendavernd, það er órökstutt. Það er lækkun á verði, það er órökstutt og að öllum líkindum rangt. Það er í þriðja lagi jafnræði. Það er ekki einu sinni skilgreint hvað í því felst, órökstutt að öðru leyti og sagt að þetta sé til að viðhalda hér opnu og frjálsu samfélagi. Við höfum teflt fram fjölmörgum þýðingarmiklum grundvallaratriðum sem snerta þetta mál og ekkert af því fær umfjöllun.