149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:26]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að grípa þetta og segja: Það er kannski enn furðulegra að Ríkisútvarpið skuli láta sér nægja þessar tölulegu staðreyndir um fjölda ræðna og fjölda andsvara, og klukkutíma og mínútur, þegar Ríkisútvarpið ohf. hefur lögbundna skyldu til að efla upplýsta umræðu um það sem hæst ber hverju sinni. Það eru út af fyrir sig þau atriði sem hv. þingmaður benti á, þ.e. árekstur þessa máls við stjórnarskrá svo að við séum kurteis. Það er valdframsal sem er óumdeilt að mati færustu sérfræðinga. Það er hugsanleg einkavæðing, uppskipting fyrirtækja o.s.frv. lengra fram í tímann. Fyrir utan það sem fram hefur komið og fram kom á fyrstu dögum þessarar umræðu, þ.e. áður en við tókum til við að malda í móinn, og það var þessi yfirlýsing: Þessi pakki skiptir engu máli! Þetta skiptir svo litlu máli. Og þá segir maður: Bíddu, hvað liggur þá á að innleiða eitthvað sem skiptir engu máli ef það skiptir engu máli í raun og veru?

En málið er bara það að þeir sem mæla þessu máli bót hér á Alþingi hafa farið hring eftir hring í rökleysu. Menn handvelja hér álitsgjafa til að vitna í máli sínu til stuðnings, það var handvalið í nefndina. Undir lok umfjöllunar utanríkismálanefndar fékk ekki hver sem er að koma þar inn til að veita álit, vegna þess að það var handvalið í nefndina.

Allt þetta setur þetta mál í það ljós að það ætti að vera skylda ríkisfjölmiðilsins að skýra þetta mál almennilega.