149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

dagskrá fundarins.

[10:07]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti telur að dagskrá fundarins tali best fyrir sig sjálf. Á henni eru 41 mál. Nokkur mál í viðbót eru væntanleg frá nefndum í lok þessarar viku og í byrjun eða fyrri part næstu viku, þau sem hv. þingmaður nefndi, miðað við þær upplýsingar sem forseti hefur. Þá ljúki fjárlaganefnd störfum og afgreiði til okkar sín mikilvægu mál.

Með öðrum orðum bíða u.þ.b. 50 mál afgreiðslu á þingi. Meiri hluti þeirra er samkomulagsmál sem nefndir þingsins hafa unnið í vetur og skilað hingað inn í salinn með einu nefndaráliti þar sem mælt er með því að málin hljóti afgreiðslu og verði samþykkt. Dagskrá fundarins tekur mið af þessu. Svo er það í höndum hv. þingmanna að bregðast við. Það sem forseta gengur til er fyrst og fremst að rækja þá skyldu sína að reyna að leiða þingviljann í ljós í málum, hverju á fætur öðru. Mun hann ekki hafa fleiri orð um þetta.