149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

dagskrá fundarins.

[10:11]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki verið lengi á þingi og einhvern tímann var talað um leikhús fáránleikans. En að vera hérna og taka þátt í störfum þar sem er verið að skrifa handritið — ja, ég veit ekki hvenær, maður verður fyrst var við það um morguninn að það er komið nýtt handrit á borðið. Það hljóta að vera mjög undarleg vinnubrögð að vita ekki frá mínútu til mínútu, liggur við, hvað er í gangi. Hvers slags vinnubrögð eru þetta? Við hljótum að geta gert þá kröfu að þegar búið er að segja að nú fari orkupakkinn á dagskrá og það eigi að ræða hann til þrautar, þannig skildi maður það, sé staðið við það en allt í einu er hann horfinn og eitthvað annað komið á dagskrá. Ég segi fyrir mitt leyti: Verður það næsta sem skeður að það sem er komið núna hverfi? Við verðum að fara að hafa vinnubrögðin þannig að almenningur fari að bera aðeins meiri virðingu fyrir okkur en ekki minni.