149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

dagskrá fundarins.

[10:21]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kem hingað upp til að taka undir þau orð sem hér hafa fallið um hversu sérstakt það sé að dagskrá þingsins hafi verið breytt án samráðs við þingflokksformenn. Af því að virðulegur forseti nefndi áðan liðinn óundirbúnar fyrirspurnir veldur það mér sérstaklega miklum vonbrigðum að þær hafi ekki verið á dagskrá.

Þótt starfsáætlun þingsins hafi ekki staðist er augljóst að mjög alvarleg staða er uppi varðandi fjölmargt í samfélaginu. Má þar nefna alvarlega þróun í ferðaþjónustunni þar sem stefnir hvorki meira né minna en í fimmfaldan loðnubrest. Ég hvet virðulegan forseta til að endurskoða þá ákvörðun sína. Ég hvet hann sömuleiðis til að gera hlé á fundi núna og funda með þingflokksformönnum um dagskrá dagsins enda er greinilegt að hér skortir verulega á um skýrt samtal. Grunnur alls samkomulags er samtalið en hér virðist enginn vilji vera til þess.