149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

dagskrá fundarins.

[10:24]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Mér finnst augljóst að hér er búið að setja upp mikið leikrit. Leikritið gengur út á að varpa kastljósinu á ósætti um dagskrá þingsins en ekki vandræðagang ríkisstjórnarinnar. Þegar ég leit síðast á vef Alþingis fyrir svefninn voru listaðir upp ráðherrar sem áttu að vera til svara í óundirbúnum fyrirspurnum frá þingmönnum. Sennilega hefur verið of óþægilegt fyrir ríkisstjórnina að fara í þann lið þannig að honum var sleppt.

Engum dylst vandræðagangurinn um ríkisfjármálaáætlunina sem ekki er enn komin fram þó að starfsáætlun ætti að vera löngu búin. Ég spyr hæstv. forseta hvort hann vinni út frá reynslu sinni á Alþingi og reynslu sinni af þinglokum með því að setja fram slíka dagskrá og hér er á borðum þingmanna. (Forseti hringir.) Getur verið að það sé reynsla hæstv. forseta sem segir honum að þetta muni leiða til þess að þingstörfin muni ganga vel í dag og á næstu dögum?