149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

dagskrá fundarins.

[10:25]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Í dag fæðast jafn margir einstaklingar og búa á Íslandi, gerist á morgun líka, gerðist í gær sömuleiðis. Af hverju nefni ég þetta? Ég er að draga það fram að við erum lítið samfélag. Það er alveg óþarfi að haga þingstörfum með þessum hætti. Ég hef lengi borið þá von í brjósti að við getum unnið miklu betur saman. Auðvitað er hér þingræði og meiri hlutinn ræður en það er hluti af lýðræðinu að hlusta á minni hlutann. Málin batna oft við þá yfirferð.

Þessi átakahefð, sú störukeppni sem endurspeglast núna í fundarstjórninni, er alveg ömurleg. Það er ömurlegt að við bjóðum hvert öðru upp á þetta og þjóðinni. Við höfum lengi talað um að efla þingið, innleiða ný vinnubrögð og mér sýnist þetta vera nákvæmlega sama og hefur verið hér áratugum saman. Það er ekki nýtt að þingið glansi ekki beint við þinglokin en ég man þá tíma þegar núverandi forseti Alþingis gagnrýndi þáverandi forseta Alþingis fyrir að vera færibandastjóri ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) og ég velti fyrir mér hvort núverandi forseti Alþingis sé sáttur við þann titil í dag.