149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

dagskrá fundarins.

[10:31]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Mér líður svolítið eins og ég sé komin á minn gamla vinnustað, leikhúsið, af því að hér á sér stað einhvers konar sýning á meðan ríkisstjórnin reynir að finna út hvernig hún ætlar að haga fjármálum ríkisins næstu fimm árin. Eftir því sem ég best veit af samtali við ýmsa stjórnarþingmenn hafa stjórnarþingmenn ekkert fengið að sjá í pakkann um hvernig fjármálaáætlun á að líta út.

Undir eðlilegum kringumstæðum ættum við á þinginu að vera löngu búin að afgreiða málið. En þetta er svona og þess vegna er öllu hleypt upp í loft, af því að ríkisstjórnin er í bullandi vanda með þetta mál. Þau vita ekkert hvernig þau eiga að haga málum.

Á þeim tveimur sekúndum sem ég á eftir ætla ég að óska eftir liðsinni hæstv. forseta. Ég lagði fram fyrirspurn fyrir tíu vikum um kostnað vegna skipunar landsréttardómara. (Forseti hringir.) Ráðherra á að skila svari á tveimur vikum en nú, tíu vikum seinna, er ekki enn komið svar. Mér þætti vænt um að fá aðstoð forseta við það.