149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

dagskrá fundarins.

[10:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Virðulegur forseti nefndi óbilandi bjartsýni forseta áðan og þingmenn segjast vera hissa og forseti er hissa. Það er stundum erfitt að gera greinarmun á því hvenær þingmenn þykjast eða eru að grínast og ég ætla að gera ráð fyrir því að meiri hlutinn hljóti að vera að grínast sem og virðulegi forseti.

Samráðið er augljóslega sjálfsagt. Það þarf augljóslega að semja um þinglok. Virðulegur forseti hefur setið á þingi síðan 1983 og er hissa á umkvörtunum yfir samráðsleysi við þinglok. [Hlátur í þingsal.] Í alvöru talað, forseti ræður hefðinni og þekkir störfin mætavel. Það þarf að semja eða breyta reglunum. Þannig virkar þetta, virðulegur forseti veit það og þingmenn meiri hlutans vita það og geta ekki þóst vera hissa þannig að nú þarf að semja eða að breyta reglunum. Ég legg reyndar til hið síðarnefnda ef út í það er farið og býð mig fram til þess að vinna að því góða og mikilvæga starfi.

Vinsamlegast, virðulegi forseti, má meiri hlutinn hætta að þykjast (Forseti hringir.) vera hissa eða í það minnsta segja upphátt að hann sé að grínast.