149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

dagskrá fundarins.

[10:51]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég sé að hér á dagskrá eru mörg ljómandi góð mál, um virðisaukaskatt af tíðavörum og getnaðarvörnum, áætlanir um aðgerðir gegn ofbeldi, um íslensku sem opinbert mál, frumvarp um lýðskóla, húsaleigulög, vestnorrænt samstarf á sviði íþrótta barna og unglinga o.fl. Allt eru það mál sem hafa verið á dagskránni undanfarna daga en ekki komist að. Stjórnarandstaðan, sú sem hefur stundum kallað sig frjálslyndu stjórnarandstöðuna, lagði það til fyrir fáeinum dögum að einmitt þessi leið yrði farin. Nú er það gert. Ég hef svo sem ekki mikla þingreynslu en ég hef reynslu af alls konar öðrum störfum og þar sem ég hef unnið hefur það verið þannig að þeir starfsmenn sem hafa haft burði til að bregðast fljótt og vel (Forseti hringir.) við aðstæðum hafa verið þeir starfsmenn sem hafa verið einna mest metnir. Ég met það sérstaklega í fari hæstv. forseta. [Hlátur í þingsal.]