149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[10:58]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þetta er mál sem ég hef verið frekar mikið inni í í gegnum tíðina og hef haft miklar skoðanir á. Ég áttaði mig á því eftir að 2. umr. lauk að það er atriði sem tengist þessu sem er svolítið mikilvægt að við sýnum ákveðinn skilning og mér fannst rétt að reyna að gera smávægilega grein fyrir.

Þetta fyrirbæri um milliliðavernd eða ábyrgðarleysi hýsingar og milliliða í fjarskiptum er gamalt gildi sem varð til í tengslum við símkerfi á sínum tíma en þróun þess í samhengi við rafræn viðskipti og rafræna þjónustu hófst í kringum 1989 með hinu svokallaða Cubby v. CompuServe máli í Bandaríkjunum. Þar risu upp deilur um ábyrgð hýsingaraðila sem sneru að því hver bæri ábyrgð á því þegar einhver segir t.d. eitthvað ómaklegt á netinu.

Á undanförnum 30 árum hefur þetta auðvitað breyst mjög mikið. Við erum miklu fleiri sem notum rafræn fjarskipti í dag. Þó að símkerfi hafi verið til mjög lengi og mikið notað er eðli þess yfirleitt tvíhliða samtöl en á netinu bjóðast margir aðrir möguleikar, ekki síst möguleikar sem felast í því að upplýsingar séu varðveittar í gagnagrunnum og annað sem fólk getur sótt í langt aftur í tímann. Áður fyrr, og þá kannski í kringum 1989–1995, var netið fyrst og fremst vettvangur mjög lítilla aðila. Hver smábær og hvert þorp rak sína netveitu, þ.e. það var kannski eitt fyrirtæki í hverju þorpi sem rak einhvers konar netveitu. Smám saman óx þetta og fyrirtæki eins og CompuServe voru vissulega með þeim fyrstu til að taka eitthvert pláss í því sem mætti tala um sem stærri fyrirtæki. Nú er öldin önnur, bókstaflega, og við búum við það að stór fyrirtæki á borð við Facebook og Google taka til sín rosalega stóran skerf af almennum samtölum og samskiptum á netinu. Það hefur gert það að verkum að fólk hefur farið að spyrja mjög gildra spurninga um hvort aðilar á borð við Facebook, Google o.s.frv., sem sagt þessir stærstu aðilar, njóti ekki of mikils góðs af þeirri takmörkun á ábyrgð hýsingaraðila sem er til staðar og hvort takmarka ætti þá takmörkuðu ábyrgð sem var komið á koppinn með Cubby v. CompuServe og síðar með lagasetningu í Bandaríkjunum, 230. kafla, með leyfi forseta, „Communication Decency Act“, lög um velsæmi í fjarskiptum eða eitthvað álíka, og síðan í Evrópu með tilskipun 2000/31/EB sem er í raun ekkert annað en evrópsk útfærsla á sömu gildunum. Eftir því sem við færumst lengra í þessari umræðu verður þetta erfiðari spurning vegna þess að nú vitum við að t.d. Facebook er orðin verulegur áhrifavaldur í stjórnmálum í heiminum, hún er orðin verulegur áhrifavaldur í víðtækum mannréttindabrotum. Fyrir nokkrum árum voru t.d. gerðar tilraunir til að stunda þjóðarmorð á Rohingja-fólki í Mjanmar og ég get nefnt fleiri mál af slíku tagi. Þá kemur upp þessi spurning sem var í raun grundvallaratriðið í Cubby v. CompuServe málinu: Á hýsingaraðili alltaf að vera ábyrgðarlaus gagnvart efni sem er sett inn? Þessum þremur viðmiðunarreglum var komið á, að segja má: Já, en ekki ef um er að ræða höfundaréttarbrot, ekki ef um er að ræða barnamisnotkunarefni og ekki ef kominn er dómsúrskurður.

Gott og vel, en það þarf líka þessa fjórðu undirstöðureglu sem er sú að ef hýsingaraðilinn fer í að sinna einhvers konar ritstýringu er hann orðinn virkur ritstjóri og er því ekki ábyrgðarlaus lengur. Þetta gerði það að verkum að allir aðilar þaðan í frá hafa reynt að komast hjá því að stunda nokkra ritskoðun til að kalla ekki yfir sig þá ábyrgð sem verður til. En við vitum að efnisveitur eins og Facebook eru í virkri ritskoðun á því efni sem þeim ber að ritskoða en jafnframt öðru efni sem er ekki beinlínis skylda að ritskoða og reka til þess mjög stórar gervigreindir en líka heri fólks, fyrst og fremst, hef ég heyrt, í Filippseyjum, sem fara yfir efni sem er sett inn.

Ég er ekki að reyna að lengja þetta neitt sérstaklega en mér finnst þess virði að vekja athygli á þeirri snúnu stöðu sem er komin upp. Ef við förum þá leið, sem sumir eru byrjaðir að tala fyrir, að auka þá ábyrgð sem hýsingaraðilar hafa geta orðið til ákveðin kælingaráhrif. Það getur verið tregða hjá hýsingaraðilum til að leyfa ákveðin form tjáningar eða hræðsla við að selja þjónustu til lögaðila sem hægt er að eltast við með góðu móti. Það geta verið ýmiss konar þrengingar á því hvers konar efni verður leyft að hýsa. Á móti kemur að við vitum að pólitíkin er að verða fyrir áhrifum vegna þess að hýsingaraðilar bera svo takmarkaða ábyrgð. Facebook skýlir sér beinlínis á bak við lög af þessu tagi til að réttlæta að þeir séu ekki að grípa inn í þegar stórfelld misnotkun er á þeirra kerfi í þágu ákveðinna stjórnmálaafla. Sömuleiðis hafa þeir falið sig á bak við þetta þegar stunduð eru þjóðarmorð sem eru að hluta til skipulögð í gegnum samskiptavettvang þeirra. Þeir segja bara: Við berum ekki ábyrgð á þessu, sem er vissulega lagalega rétt.

Hvernig getum við leyst þennan hnút? Hvernig getum við lagað þetta? Eitt sem við verðum í öllu falli að tryggja er að ef einhver takmörkun verður á þessari takmörkuðu ábyrgð smitist sú takmörkun ekki frá hýsingaraðilum yfir á netveitur, yfir símkerfið og yfir á fleira með þeim hætti að úr verði einhvers konar menning þar sem símfyrirtækin fari að hlera samskipti í þeim tilgangi beinlínis að koma í veg fyrir að þau sæti ábyrgð vegna þess sem sagt er í samskiptunum. Þetta er auðvitað nokkuð sem hægt er að koma í veg fyrir að einhverju leyti með góðri dulkóðun. Það breytir því ekki að þarna er ákveðin hætta á ferðinni sem hefur verið rakin mjög vel og reyndar eru til margar góðar bækur um allt það sem ég er að rekja hér. Það er sér í lagi ein ágæt samantektarbók sem heitir Filters and Freedom sem kom út fyrir sjö til átta árum. Hitt er að við erum með mjög margar tegundir aðila í dag, við erum með þessa stóru aðila sem eru kannski að gera aðra hluti en lagt var upp með og skilningur var á þegar Cubby v. CompuServe málið var tekið fyrir. Það er alveg hægt að finna einhverja leið til að segja að eðli Facebook, YouTube og Google gagnvart ýmsu sé annað en þegar BBS-kerfi voru rekin í fyrndinni, fyrir 30 árum.

Það að finna út hvar eigi að draga þá línu held ég að sé eitt af þeim atriðum sem við munum þurfa að glíma við á þessum vettvangi á næstu árum. Það eru allar líkur á því að þetta verði leyst fyrst á vettvangi Evrópusambandsins og einhvers konar lausn verði fundin þar og líklega í víðtækara samráði, t.d. á grundvelli svokallaðra governance-spora, með leyfi forseta, þ.e. samráðsvettvangs netsins sem rekinn er af Sameinuðu þjóðunum. En þangað til slík endanleg lausn finnst — reyndar er ekkert sem heitir endanleg lausn í þessum efnum, en þangað til finnst út hvert er næsta stig þróunar í þessum takmörkunum á ábyrgð hýsingaraðila — munu koma upp mál í íslensku samfélagi og víðar í heiminum sem verða til þess að við þurfum að ræða þau hér og reyna að finna lausnir. Ég vildi því bara leggja þetta inn í umræðuna á þessu stigi til að við séum þá meðvitaðri um það og getum reynt að nálgast þetta af ákveðinni virðingu við það flókna verk sem er að halda jafnvægi á þeim mismunandi sjónarmiðum sem ríkja hér.