149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[11:09]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðisgóða ræðu. Ég verð að segja eins og er, sitjandi með hv. þingmanni í efnahags- og viðskiptanefnd sem fjallaði um þetta mál, að mér fannst þetta eiginlega betri yfirferð yfir álitaefnin í málinu en við fengum fyrir nefndinni þannig að ég þakka enn og aftur.

Þetta er mjög áhugavert viðfangsefni því að hér erum við að takast mjög ákveðið á um mörk tjáningarfrelsis, sérstaklega þá tjáningarfrelsis gagnvart stigvaxandi vanda okkar varðandi falsfréttir og dreifingu markvissra blekkinga sem settar eru fram í þeim tilgangi að grafa jafnvel undan lýðræðislegu þjóðskipulagi í fjölmörgum löndum eins og við sjáum dæmi um.

Ég velti því fyrir mér í þessu samhengi að áhugavert væri að heyra sjónarmið hv. þingmanns varðandi þær raunverulegu uppákomur hér þar sem við sjáum slíka tilburði í kosningum hér á landi. Við sáum alls kyns nafnlausan áróður, hreinar blekkingar og lygar í mörgum tilvikum, sem dreift var með mjög markvissum hætti í aðdraganda kosninga. Því miður, segi ég, var ekki neitt gert með það af hálfu stjórnvalda eftir kosningar að kafa ofan í hverjir hefðu þar mögulega staðið að baki og hvort um hefði verið að ræða brot á kosningalöggjöf okkar eða hverjir hefðu þá verið að brjóta þá löggjöf.

Ég velti fyrir mér hvort við höfum möguleika til að útvíkka, að mati hv. þingmanns, löggjöf sem þessa til að reyna að taka á þessum álitaefnum.