149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[11:11]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ekki auðveld spurning hjá hv. þingmanni. Spurningin snýst alltaf um hvernig hægt sé að auka ábyrgðina hjá hýsingaraðilum það mikið að þeir verði t.d. að taka þátt í því að upplýsa hverjir standa á bak við beinar árásir á lýðræðið annars vegar en hins vegar hvernig við aukum ekki ábyrgðina svo mikið að þeir veigri sér við að leyfa ákveðin form tjáningar. Ég kann ekki gott svar við þessari spurningu. Ég er ekki viss um að neinn kunni gott svar við þeirri spurningu en ein leið væri að auka upplýsingaskyldu gagnvart yfirvöldum í þeim tilfellum þar sem um er að ræða eitthvert ólöglegt athæfi. Þá þyrfti að skilgreina það nokkuð þröngt, t.d. hatursáróður og annað. Það er mjög snúið að taka á falsfréttum af því að falsfréttir eru ekkert annað en skoðanir sem einhverjir hafa sem byggjast að vísu ekki á staðreyndum eða neinu.

Það þarf einhvern veginn að finna lausn á þessu. Ég held að hluti af ástæðunni fyrir því að við erum í þessu vandamáli í dag, og þetta er ákveðin söguskoðun af minni hálfu, sé að þeir sem hönnuðu netið á sínum tíma hönnuðu það í góðri trú. Þeir hönnuðu það á þeim forsendum að allir væru í raun að vinna saman að því að eiga frekari samskipti. Ákveðnar ákvarðanir voru teknar þá sem hefði kannski ekki átt að taka um það traust sem ætti að ríkja. Fyrir vikið erum við í ástandi þar sem tæknilegt undirlag netsins byggist ekki á neinum forsendum um traust og verið er að reyna að smyrja traustkerfi (Forseti hringir.) ofan á í dag sem verður snúið að gera og margir eru því miður að misnota traustleysið.