149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[11:16]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er ákveðið vandamál líka í þessu, það er svo erfitt að slíta þetta í sundur. Við tölum t.d. um að netið hafi verið byggt upp í góðri trú, að allir væru að vinna saman í góðri trú og þar af leiðandi var ekkert traustlag byggt inn. Allir gátu gert allt án þess að þurfa sérstaka auðkenningu. Það er vissulega einn af þeim þáttum sem gerðu netinu kleift að vaxa jafn hratt og það gerði. Núna smitast þetta traustleysi inn í alla þætti mannlegs samfélags, hvort sem það er rekstur á peningakerfi eða greiðslufyrirkomulagi, netveitum sem sjá um fréttaflutning og annað eða samtöl milli manna. Svo koma náttúrlega þjóðaröryggisatriðin inn í þetta líka sem beinast kannski fyrst og fremst að því að ekki er hægt að setja bara her á landamærin og vona að það dugi til þess að fæla árásir frá vegna þess að árás getur verið innan frá eða utan frá, hreinlega eftir því hver ræður yfir hvaða tæki hvenær.

Landamæri hafa bara enga þýðingu í þessu samhengi og þegar við eigum við aðila, eins og þennan hóp Kosningar 2016–2017 eða hvað það er, vitum við alveg hverjir eru á bak við það en við getum kannski ekki sannað það vegna þess að menn fela sig á bak við þetta ákveðna nafnleysi sem Facebook býður upp á. Það er eitthvert samtal sem ekki er hægt að eiga við Facebook fyrr en búið er að finna út hvernig við tryggjum jafnvægi milli þess að halda takmarkaða ábyrgð hýsingaraðila sem skiptir verulegu máli fyrir áframhaldandi framþróun þessarar tækni. Á sama tíma búum við til einhverja leið til þess að (Forseti hringir.) Facebook sem fyrirtæki megi og þurfi að upplýsa um það hverjir standa á bak við beinar árásir á lýðræði okkar.