149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[11:22]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að reyna að útskýra þetta fyrir mér. Ég skrifaði hjá mér að milligönguaðili væri hýsingaraðili en svo hélt hv. þingmaður áfram og útskýrði einmitt að þetta væri hvor sinn aðilinn. Svo bættist við orðið efnisveita sem er þá eins og Spotify, en ég átta mig ekki alveg á því hvar ábyrgðin liggur. Segjum sem svo að einhver síða birti ólöglegt efni, t.d. ef Spotify eða Facebook birti ólöglegt efni eða einhver sem rekur Dropbox veit af því að þar inni er ólöglegt efni, gæti hv. þingmaður farið aðeins ofan í það hvort ég sem einstaklingur gæti farið til lögreglu og sagt: Ég veit að í Dropboxi hjá einhverjum aðila úti í bæ er að finna ólöglegt efni. Hver ber ábyrgð á því? Er það einstaklingurinn sem hlóð inn efninu eða ef verið er að dreifa — í mínu fyrra starfi sem lögmaður kom stundum til að við þurftum að finna efni og var það aðallega hatursklám þar sem var verið að dreifa mjög meiðandi myndefni af einstaklingum og þá lenti lögreglan iðulega í vandræðum með það af því að það voru einhverjir hýsingaraðilar, eins og talað var þá um, úti í heimi sem enginn vissi hvar var. (Forseti hringir.) Hvar liggur ábyrgðin á þessu öllu saman? Getur hv. þingmaður útskýrt hvort þetta frumvarp fari mögulega inn í það að reyna einhvern veginn að greina ábyrgðina?