149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[11:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki meina að málið sé sofnað inni í nefnd, ég bind vonir við að það komist út úr nefnd og verði jafnvel samþykkt eða sent til ríkisstjórnar. Sjáum til hvernig fer með það. Óháð því mun málið koma fram og verða samþykkt á einhverjum tímapunkti, ég hef engar efasemdir um það, þótt það verði ekki endilega frumvarpið sem ég lagði fram sjálfur.

Hér er mikilvægur tæknilegur punktur sem við verðum að hafa í huga þegar við ræðum hvernig við ætlum að hafa stjórn á upplýsingum á internetinu. Ég á við upplýsingar í mjög víðum skilningi. Til dæmis er allt myndefni upplýsingar í grunninn, þar á meðal barnaklám og ofbeldisverk. Við þurfum að átta okkur á því hvern við ætlum að gera ábyrgan. Þegar ég var að skrifa mitt frumvarp var ég mjög meðvitaður um að gera réttan aðila ábyrgan. Milliliðir internetsins geta ekki verið ábyrgir fyrir því sem gerist á internetinu. Það þarf að vera einhver ábyrgð og við setjum einhverja ábyrgð eins og t.d. þegar um er að ræða barnaklám og reyndar líka samkvæmt þessu frumvarpi. Það eru bara settar skýrari og betri kröfur um hvað þurfi til þess að taka efni niður, en milliliðir og hýsingaraðilar eigi að vera eða séu algerlega ábyrgðarlausir. En við þurfum að hafa í huga hver ber ábyrgð á efninu sjálfu.

Þegar kemur að stafrænu eða myndrænu kynferðisofbeldi er mikilvægt að við séum ekki að gera alla milliliði og hýsingaraðila að einhvers konar lögregluafli. Það er rangur aðili til að framfylgja lögum. Við getum þurft að gera það í einhverjum tilfellum en við eigum að forðast það. Við eigum að reyna að setja ábyrgðina á herðar þeim sem fremur brotið meðvitað og upplýst. Þegar menn taka upp á því að gera milliliði, hýsingaraðila, hvað þá netþjónustu, ábyrga fyrir því efni sem er sett á internetið af einhverjum öðrum er ekki hægt að framfylgja því nema með regluverki sem dregur verulega úr frjálsu flæði upplýsinga. Og þarna er togstreitan sem ég nefndi áðan. (Forseti hringir.) Þetta er ekki augljóst og ekkert endilega einfalt en þess heldur er mikilvægt að við skiljum vel afleiðingar sem frjálst flæði upplýsinga hefur á samfélög.