149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[11:52]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni prýðisgóða ræðu. Mér finnst mjög gaman að hlusta á Pírata tala um þetta málefni, þeir hafa kynnt sér það mjög vel og setja fram mjög áhugaverð sjónarmið, ekki hvað síst í umræðunni um hvar mörk hins lögvarða höfundaréttar eigi að liggja í gerbreyttu samfélagi.

Ég hef hins vegar kannski aðrar áhyggjur í tengslum við þetta tiltekna mál og það snýr að, eins og kom fram í fyrri andsvörum mínum við hv. þm. Smára McCarthy, kosningalöggjöfinni okkar, kosningaafskiptum, getum við sagt, óprúttinna hulduaðila af lýðræðislegum kosningum víða um heim sem við sjáum fleiri og fleiri dæmi um. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í skoðanir hans og sjónarmið.

Verði frumvarpið að lögum, sem allar líkur eru á, er verið að veita viðbótarheimildir eða auka nokkuð á ábyrgð hýsingaraðila megi þeim vera ljóst að um ólögmætt efni sé að ræða. Þar stendur hnífurinn í kúnni þegar kemur að kosningalöggjöfinni, hún er dálítið enn þá eins og við séum bara með 19. aldar kosningaefni. Við höfum miklar áhyggjur af áróðri á kjörstað en erum með afskaplega fátækleg úrræði, refsiheimildir og hvað þá hrein bannákvæði hvað varðar þær ógnir sem okkur stafar af með tilkomu falsfrétta og vísvitandi blekkinga í gegnum samfélagsmiðla. Í fyrra andsvari velti ég fyrir mér: Deilir hv. þingmaður þessum áhyggjum? Og hefur flokkur hv. þingmanns velt fyrir sér hvað sé til ráða til að taka á þeim vanda?