149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[11:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefnir efni sem er tilefni miklu víðtækari umræðu og meiri umræðu en varðar þetta mál alveg klárlega, eins og allt sem varðar miðlun upplýsinga og metnaðar okkar um að nýta upplýsingatæknibyltinguna með jákvæðum afleiðingum.

Vandinn sem hv. þingmaður nefnir, falsfréttir eins og stundum er talað um, áróður eða blekkingar á netinu, er gott dæmi um hvernig tæknin þróast fyrst, samfélagið þróast hægar og löggjöfin langhægast. Satt best að segja átta ég mig engan veginn á því hvernig hægt sé að bregðast við þeim vanda með löggjöf. Ég sé ekki fyrir mér að það sé mögulegt án þess að fara inn í mjög óþægilegar spurningar, eins og þær hver á að dæma um það hvað sé satt og hvað ósatt. Pant ekki setja það vald í hendur yfirvalda, lýðræðislega kjörinna eður ei. Það ætti að vekja okkur svolítið til umhugsunar um hvernig hægt sé að stuðla að því að upplýsingar á netinu hafi jákvæðar afleiðingar fyrir m.a. lýðræðið.

Eins og ég sé þennan vanda í grundvallaratriðum — ég ítreka að ekki er nægur tími til að ræða þetta af neinni dýpt, því miður. Það sem gerðist t.d. þegar Obama bauð sig fram eða Píratar upprunalega var það að tiltölulega frjálslynd öfl áttuðu sig á því að internetið væri til og fóru að nota það í kosningabaráttu. Síðan komu íhaldsöfl sem voru reiðubúin til að beita miklu óheiðarlegri aðferðum þegar þau föttuðu allt í einu að tæknin væri til staðar og byrjuðu að nota hana alveg grímulaust í áróðurs- og blekkingaskyni, nokkuð sem frjálslyndu öflin voru ekki jafn reiðubúin til að gera og vildu ekki beita sömu aðferðum. Þarna er því kominn ákveðinn lýðræðishalli inn í upplýsingatæknibyltinguna. Sá lýðræðishalli byggir í rauninni á því hver sé reiðubúinn til að nota tæknina með illu og hver sé reiðubúinn til að nota hana til góðs. Það er vandamálið sem ég fæ ekki alveg séð í fljótu bragði hvernig við getum lagað með löggjöf.