149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[12:01]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Hér er á ferðinni alveg ágætt mál og rétt að taka strax fram í upphafi að ég er á nefndaráliti um málið frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd og styð það heils hugar. Í öllum einfaldleika snýr það að því að skerpa á ábyrgð hýsingaraðila þegar ljóst má vera að um sé að ræða ólöglega starfsemi eða upplýsingar og, að því er varðar skaðabótaábyrgð, sé kunnugt um staðreyndir eða aðstæður svo ljóst megi vera að um ólöglega starfsemi eða upplýsingar sé að ræða, eins og segir í því ákvæði sem hér er bætt inn. Ég held að þetta sé mikilvægt. Við þurfum að geta gripið inn í þegar verið er að dreifa vísvitandi ólögmætu efni. Spurningin sem ég hef aðeins verið að velta upp í andsvörum snýr að þessum grundvallaráhyggjum þegar kemur að framtíð lýðræðislegra samfélaga.

Við höfum skýr dæmi fyrir framan okkur þar sem fullyrða má að úrslit tvennra mjög örlagaríkra lýðræðislegra kosninga í tug- eða hundraðamilljónaríkjum hafi ráðist af algjörri misnotkun á samfélagsmiðlum. Nefna má skipulögð afskipti Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum sem ná svo langt aftur sem til 2013, að menn telja, með skipulögðum áróðri sem augljóslega var beint gegn öðrum frambjóðandanum og til stuðnings hinum. Það hefur verið kortlagt mjög vel hvernig þúsundum falskra reikninga að lágmarki var beitt skipulega af rússneskum yfirvöldum og náðu augum og eyrum milljóna ef ekki tugmilljóna notenda á samfélagsmiðlum og höfðu tilhneigingu til þess, t.d. eins og ágætlega er skjalfært, að dúkka upp þegar óheppileg mál komu upp hjá karlkyns frambjóðandanum í þeim forsetakosningum og þá skyndilega fylltist netið af endurteknum óhróðri um Hillary Clinton.

Sama gerðist augljóslega í Brexit-kosningunum, raunar svo að frumniðurstöður þarlendra yfirvalda segja að kosningalöggjöf Bretlands hafi verið brotin af hálfu nei-hliðarinnar með skýrum hætti og raunar má segja með ólíkindum að niðurstöður slíkra kosninga þar sem úrslit voru jafn naum skuli yfir höfuð vera látnar standa þegar kemur í ljós að önnur hlið braut með skýrum hætti gegn bresku kosningalöggjöfinni.

Þetta er nokkuð sem hlýtur að vera okkur hér mikið umhugsunarefni. Það væri hreinn barnaskapur af okkur að ætla að slíkum meðulum verði ekki beitt hér. Smæð okkar og að einhverju marki lítil áhrif í alþjóðlegu samhengi sem gerir okkur kannski betur varin gegn stórfelldum afskiptum erlendra ríkja breytir því ekki að það getur verið veruleg hætta á því að sömu meðulum sé beitt af innlendum aðilum, hvort sem er stjórnmálaflokkum eða hagsmunaaðilum hér á landi sem geta beitt fjárstyrk og farið fram í skjóli nafnleysis með jafnvel mjög markvissar auglýsingaherferðir til að hafa áhrif á niðurstöður kosninga.

Þegar ég horfi á þetta mál hér og sé að það er verið að skerpa á og veita heimild til inngripa fyrir hýsingaraðila þegar ljóst má vera að um ólöglega starfsemi eða upplýsingar er að ræða sýnist mér einmitt okkar veikleiki í kosningalöggjöfinni vera sá að þar vantar talsvert upp á að löggjöfin sé nægilega skýr um hvað teljist þá ólögmæt afskipti eða inngrip í lýðræðislegar kosningar og hvað ekki þannig að hægt sé að grípa strax inn í en að slíkur áróður fái ekki bara að leika lausum hala, ef svo mætti að orði komast. Við virðumst satt best að segja sem stjórnvöld hafa meiri áhyggjur af því að fólk sé með eitthvert barmmerki á sér þegar það kemur á kjörstað en að það sé verið að eyða milljónum eða jafnvel tugmilljónum í einhverjar nafnlausar áróðursauglýsingar sem jafnvel dreifa hreinum ósannindum.

Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur á sama tíma og ég fagna þessu máli og þessari heimild að horfa til þess hvernig við getum skerpt kosningalöggjöf okkar svo að þetta nýja heimildarákvæði geti virkað fyrir okkur í lýðræðislegum kosningum til inngripa strax. Ég held raunar líka að það sé full ástæða til þess einmitt að endurskoða löggjöf um fjármál stjórnmálaflokka, auka enn frekar á gagnsæi þar, tryggja að tengdir aðilar geti ekki bara farið fram undir einhverri annarri kennitölu með stórfelldum fjáraustri til stuðnings einstökum framboðum og brotið þannig klárlega gegn anda kosningalöggjafarinnar, en líka um leið að tryggja lágmarksgagnsæi með sama hætti og við eigum að standa ríkan vörð um tjáningarfrelsið og frelsi fólks til að halda fram hvers kyns bulli, hreinum lygum ef það svo kýs.

Það er einmitt þetta með eðli frelsisins, því fylgir ábyrgð og ábyrgðin er auðvitað engin ef ekki liggur ljóst fyrir hverjir setja staðhæfingarnar fram. Þá geta menn skýlt sér á bak við fullkomið ábyrgðarleysi, nafnleynd, og það á ekkert skylt við tjáningarfrelsi. Það hlýtur að vera grundvallarkrafa okkar, sérstaklega þegar kemur að staðhæfingum í lýðræðislegum kosningum, að það sé skýrt hverjir beri ábyrgð á þeim staðhæfingum sem settar eru fram, hverjir fjármagni þær auglýsingar sem verið er að birta o.s.frv.

Auðvitað er það alveg rétt sem kom fram í umræðu áðan, að við munum eiga erfitt með að ná í skottið á erlendum aðilum sem vilja brjóta kosningalöggjöfina okkar en með skýrum lagaákvæðum með því að skerpa á lagarammanum um það hvernig lýðræðislegar kosningar skuli fara fram hér á landi getum við í það minnsta stöðvað birtingu efnis sem brýtur í bága við þessi grundvallarsjónarmið.

Þegar við horfum til þess að auðvitað sé algjört lykilatriði að verja tjáningarfrelsið, auðvitað sé algjört lykilatriði að stjórnvöld á hverjum tíma séu ekki með einhvers konar ritskoðun á því sem sagt er í tengslum við lýðræðislegar kosningar, þ.e. að menn hafa fullt frelsi til að vera vitleysingar eða hreinir lygalaupar í lýðræðislegum kosningum ef þeir kjósa að gera svo, þarf að vera alveg skýrt hverjir eru að færa slíkar falsfréttir á borð, hverjir eru að gera tilraun til að ljúga að almenningi, þannig að öðrum handhöfum þessa sama tjáningarfrelsis sé þá mögulegt að beina spjótum sínum að uppruna umræðunnar.

Það er algjörlega óþolandi og mikil vonbrigði að sjá metnaðarleysi okkar hvað varðar t.d. þessi atvik í síðustu og þarsíðustu alþingiskosningum þar sem við sáum alveg hreina og klára tilburði í þessa átt. Þó að ég ætli ekki að standa hér og fullyrða að þessir tilburðir hafi haft einhver afgerandi áhrif á niðurstöðu kosninganna var samt sem áður mjög ógeðfellt að fylgjast með þessu, mátti auðvitað með nokkuð einföldum hætti eigna flesta þessa tilburði einum stjórnmálaflokki eða bakhjörlum hans en það breytir því ekki að við verðum að taka fastar á þessum málum ef við ætlum að koma í veg fyrir að þetta verði enn meira vandamál í kosningum hér á landi þegar fram í sækir. Við getum haft hliðsjón af því að afskipti sem þessi af lýðræðislegum kosningum í nágrannalöndum okkar hafa fremur farið vaxandi en hitt og við skulum ekki gera okkur neinar grillur um annað en að sama þróun verði hér á landi. Ég vona svo sannarlega að okkur auðnist að tryggja að þegar við förum í alþingiskosningar að nýju, sem verður væntanlega í síðasta lagi árið 2021 takist þessari ríkisstjórn að þrauka kjörtímabilið, að við séum þá tilbúin til þess og höfum farið í gegnum lagarammann í kringum þetta þannig að ákvæði þessa ágæta máls gætu hjálpað okkur í baráttunni gegn falsfréttum og fullkomlega óeðlilegum áróðri og tryggt að aðilar sem standa að baki slíku þurfi einfaldlega að sýna það lágmarksgagnsæi að opinbera hverjir þeir séu, ella megi stöðva dreifingu slíks áróðurs.

Mér finnst ekki óeðlileg nálgun í kosningalöggjöf að gera þá lágmarkskröfu að þeir sem kjósi að beita tjáningarfrelsi sínu í kosningabaráttu standi skil á ábyrgð sinni með því að það sé skýrt og opinbert hverjir þeir séu, hvernig auglýsingaherferðir séu fjármagnaðar, hvort þær heyri t.d. undir lög um stjórnmálaflokka og fjármögnun þeirra og hvernig við stöndum að lýðræðislegum kosningum.

Samtímis og ég fagna þessu held ég að það sé alveg gríðarlega mikilvægt að fara í endurskoðun á kosningalöggjöfinni. Ég hef talsvert meiri áhyggjur af þessu en ólögmætum kosningaáróðri á kjörstað með því að frambjóðendur hafi mögulega gleymt að taka barmmerkið úr jakkanum þegar þeir gengu inn.

Þetta er hin raunverulega ógn sem steðjar að lýðræðislegum samfélögum og hana ber ekki að meðhöndla léttvægt. Reynslan sýnir okkur einfaldlega að lýðræðið er í töluverðri hættu út af þessu og við höfum, þökk sé svona meðulum, m.a. forseta í einu stærsta lýðræðisríki heims sem virðist ekkert bera allt of mikla virðingu fyrir lýðræðinu sjálfu.