149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[12:15]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þetta eru áhugaverðar vangaveltur. Ég er alveg sammála sjónarmiðum hv. þingmanns, þetta er afskaplega fín lína. Frelsi til uppljóstrana í skjóli nafnleyndar er ákaflega mikilvægt frelsi og þarf að standa vörð um að einstaklingar njóti verndar telji þeir sig þurfa hennar. Það getur verið af misalvarlegum ástæðum en er gríðarlega mikilvægur þáttur í lýðræðislegu samfélagi.

Ég er fyrst og fremst að velta fyrir mér þessari línu þegar komið er að skipulagðri dreifingu á efni í tengslum við lýðræðislegar kosningar. Ég tel að auðkenni þess sem dreifir gangi ekki á rétt til uppljóstrunar. Til dæmis geta einstaklingar alltaf komið uppljóstrunum sínum á framfæri til fjölmiðla svo (Forseti hringir.) dæmi sé tekið. Fjölmiðlar bera þá ábyrgð á því að kanna hvað liggur að baki áður en þeir fara í skipulagðan fréttaflutning um viðkomandi.