149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[12:24]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Umræða um staðreyndavaktir leiðir alltaf hugann að veikri stöðu fjölmiðla hér á landi, sérstaklega veikri fjárhagslegri stöðu, og við þurfum að gera hvað við getum til þess að styrkja stöðu þeirra. Það er ekki til mikilvægara afl í lýðræðislegum samfélögum en einmitt frjáls og fjölbreytt fjölmiðlun. Vonandi munu menn herða enn róðurinn þar varðandi staðreyndavaktir sem þessar. En þegar kemur að dreifingu falsfrétta finnst mér lágmarkskrafan að það sé ljóst hver dreifir. Það auðveldar bæði almenningi að leggja mat á eitthvert „sannleiksgildi“ en auðveldar um leið líka þá staðreyndavöktun að (Forseti hringir.) bæði kanna sannleiksgildi en ekki síður það sem oft er mikilvægara, hvað liggur að baki dreifingunni (Forseti hringir.) eða uppruna viðkomandi frétta.