149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[12:25]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi fyrst og fremst taka undir það sem hv. þingmaður segir um mikilvægi þess að það sé tekist á við þessa pólitísku misnotkun af miklu afli en á sama tíma vara eindregið við því í samhengi þessa frumvarps að það sé reynt að varpa ábyrgðinni yfir á milliliði í fjarskiptum.

Líkjum þessu við önnur mál. Ef morð væri framið í leiguhúsnæði dytti engum í hug að kenna leigusalanum um. Ef bíll frá bílaleigu væri notaður sem flóttafarartæki í bankaráni dytti engum í hug að kenna bílaleigunni um. Það að búa til mjög víðtæka ábyrgð hýsingaraðila þegar hýsingaraðilar eru notaðir sem milligönguaðilar um ýmiss konar brot er mjög hættulegt, ekki bara vegna þess að það er stílbrot, heldur líka vegna þess að það setur (Forseti hringir.) ábyrgðina á rangan stað.