149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[12:30]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Mig langar aðeins að snerta á einu sem hann gat um í máli sínu varðandi tjáningarfrelsi í kosningum og hvar mörkin liggja í raun og veru þegar hagsmunasamtök úti í bæ eru að berjast fyrir sínum hagsmunum og jafnvel hagsmunum ákveðinna stjórnmálaflokka eða stjórnmálamanna. Þetta er umræða sem á sér stað um allan heim og sagan sýnir að sjálfsögðu að það sem gerist úti í hinum stóra heimi gerist einnig hér. Ég hef talsverðar áhyggjur af því, sem hv. þingmaður gat um áðan, þegar um er að ræða nafnlausa hópa á internetinu sem eru með vafasamar fullyrðingar eða hrein og bein ósannindi. Ég held að þetta dragi bæði úr gildi lýðræðisins og tiltrú fólks á lýðræðinu.

Ég velti fyrir mér skoðun þingmannsins á því hvernig við getum brugðist betur við. Ég held að þetta sé vandi sem muni aukast þegar á líður og við ættum kannski að gera áður en við dettum í kosningagírinn (Forseti hringir.) eftir rúmlega ár eða hvenær sem það verður. Þetta er vandi sem ég held að allir flokkar þyrftu að taka höndum saman um og reyna að uppræta með einum eða öðrum hætti, að þessar „fake news“ tröllríði ekki öllu hér eins og við sjáum annars staðar.