149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[12:32]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Afskipti hagsmunaaðila af lýðræðislegum kosningum snúa í fyrsta lagi að því hvaða reglur eða skorður við viljum setja varðandi fjármál, bæði stjórnmálaflokka og fjármögnun kosningabaráttu sem slíkrar, þá styrktaraðila. Mér þætti alltaf best, sérstaklega þegar maður horfir til bandarískra stjórnmála, ef það væri hægt að koma í veg fyrir að hagsmunaaðilar eða fyrirtæki væru yfir höfuð mikið að styrkja stjórnmálaflokka eða að ella væri um mjög lágar styrktarfjárhæðir að ræða. Mér finnst það ekki eðlileg nálgun á lýðræðislegar kosningar, miklu frekar að við tökum á fjármögnun stjórnmálaflokkanna og kosningabaráttu með öðrum hætti.

Gagnsæið er alltaf lykilatriði og það er auðvitað algjörlega óþolandi að hægt sé að reka hér nafnlausar kosningaáróðursherferðir, jafnvel (Forseti hringir.) fyrir umtalsvert fé, án þess að það komi skýrt fram hverjir standa þar að baki.