149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[12:33]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst alltaf svo merkilegt að við settum ekki lög um fjármál stjórnmálaflokka fyrr en 2006. Hugsið ykkur hvernig þetta var á árum áður. Þetta var villta vestrið og ógagnsæið var slíkt að það bauð upp á mikla vantrú og tortryggni. Auðvitað eru það lög sem við þyrftum að endurskoða með reglubundnum hætti.

Ég tek undir mál hv. þingmanns um mikilvægi þess að hér ríki gagnsæi. Við sjáum eins og t.d. í Bandaríkjunum, landi sem hv. þingmaður minntist á, í hvers konar ógöngur stjórnmálin eru komin þar, m.a. vegna þess að samkrull hagsmunasamtaka, peninga og stjórnmálamanna er fullkomið ef svo má segja. Þetta er víti sem ber svo sannarlega að varast og svo tengist þetta að sjálfsögðu þessum vanda þegar hér myndast nafnlausir hópar sem eru að berjast með vafasömum hætti fyrir ákveðnum hagsmunum eða stjórnmálaflokkum. Við sáum glitta í þetta í síðustu kosningum (Forseti hringir.) og ég held að þetta sé eingöngu smjörþefurinn af því sem koma skal, því miður, herra forseti.