149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[12:36]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um mjög mikilvægt mál og angar þess teygja sig víða um samfélagið eins og komið hefur fram í umræðunum, alveg inn í falsfréttir, tjáningarfrelsi, kosningalögin okkar og því um líkt. Grundvallaratriðið í þessu máli tengist því að hver sem er getur, eins og tæknin er núna sett upp, rekið miðil í skjóli nafnleyndar. Það er í raun ýtrasta form tjáningarfrelsisins að hver sem er getur orðið nafnlaus miðill. Ágreiningurinn er þá um nafnleysið því að ekki er hægt að draga fólk til ábyrgðar á orðum sínum en tjáningarfrelsi snýst ekki um að hver sem er geti sagt hvað sem er hvar sem er. Nafnleysið er víðtækara af því að þó að nafnleysi væri afnumið af netinu værum við enn með nafnleysi í fyrirtækjaumhverfinu, samanber skúffufyrirtæki, uppskáldaðar stjórnir og slíkt. Gott dæmi, sem allir ættu að þekkja, er Wintris.

Við Píratar erum með frumvarp um aukið aðgengi að ársreikningum og hluthafaskrá sem væri samt ekki nóg til að glíma við þetta. Í því umhverfi þarf ákveðna lokaábyrgð, að þeir sem eru skráðir aðilar beri fulla ábyrgð og leynieigandi geti ekki verið þar á bak við. Ef upp kemur einkamál, eða ef þessir platstjórnendur ákveða að selja fyrirtækið og hirða allan gróðann af því sjálfir, getur einhver komið og sagt: Heyrðu, fyrirgefðu ég á þetta. Það er hægt að skrifa upp á einhvers konar leyniskjöl á bak við samninga sem ekki er greint frá og eignarhald er í raun falið þannig. Það er það sem við glímum við hvað varðar nafnleysi fyrirtækja og þess háttar aðila og það tengist aðeins falsfréttunum, að við getum ekki rakið hver ber ábyrgð þegar að þeim kemur. Nafnleysið er hins vegar vörn gagnvart njósnum. Það kemur í veg fyrir tilvísun í kennivald þar sem skiptir ekki máli hver þú ert, bara hvað þú segir. Nafnleysi er t.d. notað í íslenskum fjölmiðlum þegar höfundur greinar ritar undir dulnefni.

Það geta verið góðar ástæður fyrir einstaklinga til að njóta nafnleysis en mér dettur ekki í hug neitt tilvik þar sem nafnleysi er góð ástæða fyrir fyrirtæki eða lögaðila, sem sagt aðra en einstaklinga. Þetta frumvarp snýst aðeins um ábyrgð hýsingaraðila í því máli sem við glímum við hér, þ.e. takmarkaða ábyrgð þeirra. Hýsingaraðilar hafa takmarkaða ábyrgð gagnvart því efni sem sett er á þær tölvur sem þeir hafa til umráða. Ef einhver setur ólöglegt efni þangað ber hýsingaraðilinn ekki eins mikla ábyrgð á því að athuga hvort allt sem er á harða diskinum hjá honum, eða inni í umræðum eða ummælum á samfélagsmiðli sem hann hýsir, er ólöglegt eða ekki.

Það er kaldhæðnislegt í tengslum við nýliðin mál á Evrópuþinginu, þar sem 13. gr. svokallaða var samþykkt, sem er orðin 15. eða 17. gr. — upprunalega var það 13. gr. sem fjallaði einmitt um síur sem hýsingaraðilum er skylt að setja upp með ákveðnum fyrirvörum um stærð og ýmislegt svoleiðis en þær eiga að huga að því hvort efnið sem sett er á netþjóna þeirra sé brot á höfundarétti eða ekki. Við erum því að komast á þann stað þar sem það er sá sem semur efnið sem ber ábyrgð á því en ekki hýsingaraðilinn. Væntanlega kemur þetta mótvægi svo seinna og við komum til með að þurfa að verjast þessari niðurstöðu á næstunni sem er dálítið áhugavert. Vel er farið yfir það í nefndarálitinu, ég vísa í það.

Við búum við þetta skrýtna fyrirkomulag þar sem staðreyndin er að almennt séð er reynt að njósna eins mikið og hægt er að komast upp með. Þjóðríki gera það, Rússland, Kína, Bandaríkin o.s.frv., stóru risarnir. Við vitum það, af því að Snowden upplýsti um það, að ekkert hefur breyst þar. Það er nákvæmlega ekkert sem segir að það sé eitthvað öðruvísi núna. Tilgangurinn er ekkert endilega að njósna um hvort verið sé að fremja lögbrot, ekki endilega, það alveg örugglega verið að gera það líka. Það er líka verið að njósna til þess einmitt að læra, t.d. í tilviki Cambridge Analytica sem lærði í raun á það hvað hvatti fólk áfram eða latti fólk til þátttöku eða hver var drifkraftur ótta þess, á hvaða ótta væri hægt að spila. Menn veltu fyrir sér hvernig hægt væri að fara í hverfi á svæði þar sem húseigendur eiga hund eða stóran bíl. Ef þau skilyrði eru uppfyllt á að banka á hurðina og rétta húseigendum ákveðinn bækling. Ef hús í sama hverfi uppfyllir önnur ákveðin skilyrði réttir þú viðkomandi hins vegar annan bækling sem spilar á ákveðinn ótta eða efa eða eitthvað sem fær fólk til að skipta um skoðun eða vera enn vissara í sinni skoðun. Það er mjög spes hversu gríðarlega fast fólk getur haldið í skoðanir sínar þrátt fyrir allar sannanir um annað eins og ég kom að í andsvari við hv. þm. Þorstein Víglundsson hér áðan. Kona stóð frammi fyrir dómara ákærð fyrir að hafa ekið yfir gatnamót á rauðu ljósi, fyrir að hafa ekki virt stöðvunarskyldu. Hún horfði á sjálfa sig keyra yfir á rauðu ljósi á myndbandi en sagði þrátt fyrir það: Nei, ég stoppaði. Það kviknaði á bremsuljósunum. Bíllinn stoppaði aldrei, hann keyrði áfram án þess að stöðva, það rétt kviknaði á bremsuljósunum af því að hún hægði á sér. Myndskeiðið var sýnt aftur og aftur en alltaf þvertók konan fyrir að hafa ekið yfir á rauðu ljósi.

Það er merkilegt hve fast við höldum í þessa afneitun, hvernig við þvertökum fyrir að viðurkenna mistök eða rangindi í langan tíma. Það er ekkert auðvelt við þetta, alls ekki. Við erum að glíma við það í þessu, eins og ég sagði, að almennt séð er verið að njósna eins mikið og hægt er að komast upp með. Þegar arabíska vorið var var facebook gríðarlega mikið notuð til þess að mótmælendur gætu skipulagt sig og haft samskipti. Þeir fluttu sig yfir í öruggari samskipti stuttu seinna, eftir því sem ég best veit. Þetta var gert í Occupy-hreyfingunni í Bandaríkjunum með upplýsingar sem komu frá FBI. FBI hafði merkt ákveðna einstaklinga, ákveðna friðsama mótmælendur, sem „domestic terrorists“ eða sem borgaralega hryðjuverkamenn í ríkisborgaralegum skilningi. Þessir friðsömu mótmælendur voru að reyna að hafa samskipti sín á milli án þess að yfirvöld gætu fylgst með skipulagi þeirra. Yfirvöld vilja aftur á móti geta fylgst með slíkum samskiptum til að hindra alvöruhryðjuverkamenn, ekki bara þá sem eru friðsamir mótmælendur þó að þeir merki þá sem hryðjuverkamenn. Þannig hefur togstreitan verið, að með þessum njósnum hefur verið reynt að ganga á borgararéttindi undir yfirskini þjóðaröryggis. Þessar aðferðir eru notaðar og þær ganga alltaf lengra. Við erum meira að segja með dæmi um þetta hérna á Íslandi úr skýrslu lögreglu á Íslandi í kringum búsáhaldabyltinguna um vissa anarkista sem verið var að fylgjast með. Það er ekkert öðruvísi með það. Við erum ekkert saklausari hvað þetta varðar en Snowden upplýsti hér um árið.

Tengt þessu, tengt ábyrgð hýsingaraðila og því að verjast lygum, hefur verið rætt um það hver beri ábyrgð á lygum sem settar eru á miðil hýsingaraðila eða hvar það er. Er það hýsingaraðilinn sjálfur eða sá sem setur efnið fram? Og hver ber ábyrgð á því að upplýsa um það hver setti viðkomandi efni inn o.s.frv.? Frelsi til þess að ljúga í þessu er að sjálfsögðu ákveðinn hluti tjáningarfrelsisins. Það er alltaf spurning hver hefur frelsi til að ljúga og í hvaða tilgangi. Einstaklingur getur alveg sagt hvað sem honum sýnist. Vissulega ber hann ákveðna ábyrgð á orðum sínum í ákveðnum tilvikum. Það geta verið alls konar lygar sem hafa áhrif á mismunandi hagsmuni og sumir hagsmunaaðilar hafa rétt til að verja sig frekar en aðrir, en kannski ekki. Hafa fyrirtæki rétt til að ljúga að fólki í auglýsingum? Hafa stjórnmálaflokkar rétt til að ljúga að fólki í auglýsingum eða í kosningabaráttu eða annars staðar? Hafa ráðamenn rétt til að ljúga eða fela, með því t.d. að stinga skýrslum undir stól eða ofan í skúffu fyrir kosningar? Ég er á því að það hafi gerst fyrir kosningarnar 2016. Skýrsla um eignir Íslendinga í skattaskjólum lá fyrir áður en Alþingi fór heim og fjármálaráðherra ákvað að birta ekki þá skýrslu fyrir kosningar vitandi vits að kosningarnar snerust um eignir Íslendinga í skattaskjólum. Hann upplýsir að hann hafi ekki viljað setja skýrsluna í kosningasamhengi þrátt fyrir að kosningarnar hafi snúist um það. Eftir á sagði hann síðan: Nei, skýrslan var ekki tilbúin. Hann sagði það eftir að hafa sagt í ræðustól Alþingis, eftir að skýrslan var komin í hans hendur, að skýrslan væri alveg að fara að birtast Alþingi. Það er eitthvað sem mér finnst tvímælalaust varða ábyrgð ráðamanna hvað varðar blekkingar, það er eitthvað sem ég myndi vilja sjá Landsdóm koma saman vegna. Ég hef ekki farið í grafgötur með að það er merkileg togstreita í því innan þings að fara þá leið. Ég lít á ráðherra í þessu tilviki sem ákveðinn hýsingaraðila þegar allt kemur til alls. Hann býr yfir gögnum sem hann ber ábyrgð á, kýs að birta þau ekki. Mér finnst það ekkert ósvipað dæmi. Til eru sérstök lög um að ráðherra eigi að birta gögn sem varða almannahagsmuni eins fljótt og hann getur, án tafar. Þegar kemur að því að ráðherra býr þar ekki yfir málfrelsi og tjáningarfrelsi ber hann ákveðna ábyrgð.

Í þessu tilviki erum við að tala um togstreituna á milli þess að það eru einstaklingar sem hafa tjáningarfrelsi í miklu víðari skilningi en ráðamenn sem verða að standa við orð sín, bera miklu meiri ábyrgð á orðum sínum en einstaklingur sem setur upp mjög áhugaverða mynd á því hvernig fjölbreytileiki tjáningarfrelsisins er og hvernig hann er í mismunandi aðstæðum. Þetta er eitthvað sem ég hefði mikinn áhuga á að tala meira um. Ég kem kannski aftur að því í annarri ræðu.