149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[12:51]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni kærlega fyrir ræðuna. Þetta hefur verið mjög áhugavert efni, bæði ræða hv. þingmanns sem og þær sem haldnar voru hér á undan. Ég er ekki mjög tæknilega sinnuð, þekki ekki tæknilega grunninn í þessu máli. Það sem heillar mig og hræðir, eiginlega hvort tveggja í senn, er að afleiðingarnar eru svo víðtækar. Þær eru gríðarlega samfélagslegar. Þetta snertir svo miklar grundvallarbreytingar ef að líkum lætur í samfélagi okkar og getur farið í ýmsar áttir sem okkur hugnast vel. Við getum nýtt þetta okkur til hagsbóta fyrir lýðræðið, fyrir betra samfélag en við getum líka misst tökin á þessu og farið hefur verið vel yfir það í ræðum, ekki síst frá hv. þingmanni. Það sem ég velti aðeins fyrir mér er — okkur er dálítið tamt þegar við ræðum um þetta, a.m.k. þau okkar sem ræðum þetta svolítið grunnt, að tæknin þurfi að gera hitt og þetta, að setja þurfi hinar og þessar skorður við tækninni og passa að hitt og þetta gerist ekki o.s.frv.

Er hv. þingmaður sammála mér í því eða getur hann komið aðeins inn á það hvort við séum mögulega í þeim áherslum að gleyma mikilvægi þess að það skili sér inn í menntakerfið og alla þjálfun hvernig við umgöngumst þessa nýju hætti? Bara það að taka upp gamla hugtakið gagnrýnin hugsun, gera henni eilítið hærra undir höfði í öllu námi, allt frá leikskóla og upp í allar einingar háskólanáms. Að fólk fari eiginlega ekki út í samfélagið án þess að kunna, tileinka sér og vita hvað það felur í sér. Ég hefði mikinn áhuga, því að ég veit að hv. þingmaður hefur skoðað mikið þessi mál, á að heyra hvað honum finnst um þessa nálgun.