149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[12:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er mjög góð ábending af því að gagnrýnin hugsun í nútímaskilningi verður að skilja tæknina. Það er nokkuð sem hefur ekki þurft í eins miklum mæli áður. Vissulega hefur tæknin bæst við á undanförnum öldum sem smám saman skilar sér inn í þann skilning sem fólk hefur um einmitt ákveðna skynsemi.

Það sem hefur bæst við á undanförnum 10–20 árum er hraði breytinga í tækni og það er nokkuð sem við kunnum eiginlega ekki að meðhöndla. Mannlegt samfélag hefur í rauninni alltaf verið mjög tregt til breytinga og mjög fátt hefur knúið áfram breytingar annað en mannleg hugmyndafræði að vissu leyti. Það að fólk komi í nýja heimsálfu þar sem allt í einu er fullt af lausu landi býr til nýja hugmyndafræði miðað við hvernig það var áður en landnemar komu frá Evrópu til Bandaríkjanna. Það bjó til nýja hugmyndafræði, ekki tæknina á þann hátt.

Við gleymum mjög mikið mannlega þættinum einmitt í þessu. Jú, vissulega stjórnar tæknin okkur dálítið en við verðum að skilja hana og ég held að það auðveldasta sem við gætum byrjað á væri ákveðin staðreyndavakt sem er mjög algeng í stærri ríkjum og hefur verið reynt að koma upp hérna en okkur hefur aldrei tekist það. Ég veit ekki hvort við erum kannski of lítið og hagsmunatengt samfélag til að óháð staðreyndavakt gæti verið traustvekjandi eða hvar við erum á því rófi. Ég held að einhvers konar staðreyndavakt gæti verið rosalega nauðsynlegur byrjunarpunktur.