149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[13:00]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna og tilraun til að útskýra svolítið fyrir okkur skoðun hans á þessu ágæta frumvarpi. Auðvitað höfum við ekki farið varhluta af alls kyns ósannindum á internetinu, ósannindum þegar jafnvel stjórnmálaflokkar bera eitthvað fram í skjóli nafnleysis eða undir gerviaðgangi, gervieinstaklingum eða gervifélögum. Eitt er mér ofarlega í huga núna þegar við tölum um slíkan einbeittan brotavilja og það næst ekki í einstaklinginn, við vitum ekki hver er raunverulegur aðili á bak við brotið. Ég ætla aðeins að taka þetta út úr því þegar það er einbeittur brotavilji hjá stjórnmálafólki og stjórnmálaflokkum víða um heim til þess að búa til falskar fréttir eða dreifa röngum upplýsingum. Mig langar að fara yfir í alvarlegri hluti eins og að verið sé að dreifa upplýsingum sem geta verið raunveruleg ógn við þjóðaröryggi, dreifa upplýsingum sem eru raunveruleg ógn við einstaklinga, dreifa gögnum eins og ég ræddi áðan við hv. þm. Smára McCarthy um t.d. stafræn kynferðisbrot, hefndarklám eða eitthvað slíkt. (Forseti hringir.) Hvar liggur ábyrgð þess sem geymir slíkt efni og aðstoðar þá við dreifinguna?