149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[13:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið er ekkert gríðarlega einfalt en á sama tíma varðandi síðasta dæmið er það mjög einfalt þegar það er alveg vitað hvar efnið er, hverjir hýsa það og það er skýrt í lögum að það sé ólöglegt efni. Þá ber viðkomandi hýsingaraðili ábyrgð á að fjarlægja það af því að það er búið að fara í gegnum dóm, úrskurði og ýmislegt svoleiðis.

Það sem verið er að fela t.d. hérna er ferlið þar sem ekki er farið í gegnum dómstóla o.s.frv. Það má setja upp hliðstætt dæmi á borð við að einhver hefði getað sagt: Þarna er barnaklám. En það er ekki satt. Viðkomandi efni hefði horfið án þess að nokkur úrskurðaraðili hefði komið að því og hefði mögulega neikvæð áhrif gagnvart hýsingaraðilanum og/eða þeim miðli sem birti það. Þarna hvarf eitthvert efni og það er ásökun um alvarlegan glæp og þau standa eftir með að þurfa að verja sig eftir ásökunina en ekki í réttu ferli, sem sagt í rauninni sekur eftir á en ekki saklaus fyrir fram.

Ég held að það sé lykilmunurinn á því sem verið er að breyta í þessu frumvarpi og því sem hv. þingmaður er að benda á með ábyrgð hýsingaraðila gagnvart þeim málum sem hafa augljóslega farið í rétt ferli þar sem þetta fer í gegnum dómstóla og úrskurði o.s.frv., sem er einmitt það sem við erum að reyna að breyta með þessu, koma því á rétt form þannig að það sé ákveðin sönnunarbyrði í gangi.