149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[13:04]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Það sem ég velti fyrir mér, af því að hv. þingmaður talaði um dómsúrskurð, er að slíkt kerfi er afskaplega svifaseint. Áðan var verið að ræða mikilvægi þess að efla gagnrýna hugsun og tek ég heils hugar undir það. Í rauninni ætti það að vera sérstök námsgrein í grunn- og framhaldsskólum landsins og sætir furðu að svo sé ekki þótt verið sé að reyna að flétta það inn í ýmiss konar félagsfræði eða lífsleikni eða hvað þetta kallast. En við þyrftum líka að setja inn í slíkt námsefni þessa ábyrgð. Það er það sem mig langar svolítið að varpa upp, ábyrgðinni, að maður geti ekki verið veitandi þjónustu en fríað sig algjörlega ábyrgð ef manni er bent á eitthvað. Ef þolandi brota bendir á að viðkomandi sé þolandi og óskar eftir að efni sé tekið út þykir manni það í rauninni næg og óyggjandi sönnun fyrir því að hann vilji ekki hafa það þarna inni.

Ég er sérstaklega að hugsa um þá einstaklinga sem hafa þurft að þola stafrænt klám, stafræn kynferðisbrot eins og þau eru kölluð, sem hafa þurft að þola að myndefni sem er afskaplega niðurlægjandi er komið á fleygiferð um netið og er hýst einhvers staðar. Ég myndi gjarnan vilja að við reyndum einhvern veginn að vinna í því. Ég hefði alveg viljað sjá slíka breytingartillögu tekna inn í frumvarpið.