149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[13:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við skulum hafa það á hreinu að hver hýsingaraðili fyrir sig getur alveg sett upp eigin notkunarreglur. Hann er með fundarstjórn á sínu svæði og hefur algjörlega frumkvæðið að því að fjarlæga hvað sem viðkomandi hýsingaraðili vill fjarlæga af því svæði eftir því hvaða reglur hann setur, algjörlega óháð réttindum, dómsferli eða einhverju svoleiðis. Þetta er að nokkru leyti fundarsalur hýsingaraðilans. Hann hefur fullkominn rétt þegar kemur að efni sem kemur þar inn í notkunarskilmálum og ýmsu svoleiðis til að hafa sína fundarstjórn og segja: Nei, ekki þetta efni, og: Já, þetta efni. Ef viðkomandi er ósáttur við það er ekkert hægt að segja við því af því að hann á ekki svæðið. Hann hefur frelsi til að stofna sitt eigið svæði og setja inn efni þar. Þá koma upp ákveðin ábyrgðartengsl, sem ég rakti áðan, um að það sé ákveðið gagnsæi í því hver eigandinn er og er ábyrgur sem hýsingaraðili. Það eru einmitt skúffufyrirtæki og ýmislegt svoleiðis sem er hægt að fela sig á bak við þannig að maður veit kannski ekki hver eigandinn er og getur ekki rakið sig niður á það hver rekur viðkomandi efni. Það er vandamál sem við þurfum að glíma við á öðrum stað í fyrirtækjaumhverfinu almennt, með skúffufyrirtæki og því um líkt. Það hefur erfst dálítið inn á þennan vettvang sem veldur togstreitu þar á milli. Það ætti aldrei undir eðlilegum kringumstæðum að vera vandamál fyrir hýsingaraðila sem í góðri trú miðlar efni að láta hann vita af óviðeigandi efni sem hann fjarlægir þá algjörlega sjálfur út frá eigin reglum en ekki út frá lögunum, sem hýsingaraðili vill væntanlega almennt fara eftir, það hefur bara með ákveðna varúð að gera.