149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[13:41]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér er mjög áhugavert mál til umræðu sem snertir marga fleti í okkar nútímalífi. Mig langar svolítið til þess að halda áfram þaðan sem frá var horfið þar sem hv. þm. Smári McCarthy lauk máli sínu, sem er það sem ég hef verið að benda á í dag og velta vöngum yfir, þ.e. ábyrgð hýsingaraðila.

14. gr. laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu fjallar um takmörkun ábyrgðar vegna hýsingar. Þar kemur fram að þjónustuveitandi sem hýsir gögn sem látin eru í té af þjónustuþega ber ekki ábyrgð á þeim að því tilskildu að hann fjarlægi þau eða hindri aðgang að þeim án tafar eftir að hann hefur fengið, eins og segir í 1. tölulið, vitneskju um að sýslumaður hafi lagt lögbann við hýsingu gagnanna eða dómur hefur fallið um brottfellingu þeirra eða hindrun aðgangs að þeim.

Með frumvarpinu á að breyta 2. tölulið 1. mgr. 14. gr. þannig að hann orðist svo, með leyfi forseta:

„beina vitneskju um að um sé að ræða ólöglega starfsemi eða upplýsingar og, að því er varðar skaðabótaábyrgð, sé kunnugt um staðreyndir eða aðstæður svo ljóst megi vera að um ólöglega starfsemi eða upplýsingar er að ræða.“

3. töluliður 14. gr. laganna hljóðar svo, með leyfi forseta:

„vitneskju um gögn sem innihalda barnaklám.“

Ég skil mjög vel að hýsingaraðili eigi ekki að bera ábyrgð á efninu sem slíku sem er hýst, ekki frekar en, eins og hv. þm. Smári McCarthy sagði, að leigusali íbúðar hvar manndráp er framið beri ábyrgð á manndrápinu. Það er ekki þannig. Hins vegar velti ég því fyrir mér þegar ljóst er að brot er framið, það er bein vitneskja. Þá veltir maður fyrir sér hvort 1. gr. frumvarpsins, sem á að verða 2. töluliður 1. mgr. 14. gr., nái að vernda þá einstaklinga sem þurfa að þola einhvers konar meingjörð.

Við erum með skýlausa vernd í 3. tölulið, það er barnaklámið. Við erum öll sammála um að það sé ólögmætt athæfi. En mér finnst við ekki vera að búa til annars konar vörn. Við setjum inn að viðkomandi beri ekki ábyrgð á gögnum sem hann hýsir ef hann fjarlægir eða hindrar aðgang að þeim án tafar eftir að hafa fengið að vita að um ólöglega starfsemi eða upplýsingar er að ræða. Þá hljótum við að vera að tala um t.d. sölu á ólögmætum varningi, eða hvað? Erum við að tala um það? Erum við að tala um eftir að hýsingaraðili fær upplýsingar um að það sé verið að stunda sölu á öðru fólki? Er það nægilegt?

Mér þykir mjög mikilvægt að hýsingaraðili og við öll í rauninni fáum upplýsingar um ábyrgð okkar, að við látum ekki hlutina bara standa óáreitta og án athugasemda ef um er að ræða gróft brot gegn frelsi einstaklinga, gegn persónu og friðhelgi einstaklinga. Auðvitað er í 1. tölulið talað um að dómur hafi fallið en ég hef áhyggjur af því vegna þess hvernig réttarkerfið er og hversu ofboðslega svifaseint það er. Í 3. tölulið, þar sem talað er um gögn sem innihalda barnaklám, er ekki gerð nein krafa um að dómur hafi fallið eða sýslumaður hafi lagt lögbann við hýsingu gagna. Þar er bara tekin ákvörðun um að barnaklám sé slíkt brot að ef hýsingaraðili fjarlægir það ekki strax beri hann á einhvern hátt ábyrgð á því. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort við þurfum ekki að vernda fleiri hópa en bara börn þó að barnaklám sé einn af svívirðilegustu glæpum sem hægt er að fremja. Mér finnst eins og það sé ekki hægt að undanskilja alla ábyrgð og hafa þetta svo vítt að maður geti í rauninni falið það á bak við nánast hvað sem er.

Ég er mjög hlynnt tjáningarfrelsinu og það er meðal grundvallarmannréttinda. Það breytir ekki því að við erum líka með um allt kerfið lög og reglur sem eru þverbrotnar á degi hverjum, lög og reglur sem eru settar til að vernda einstaklinga, vernda líf, persónufrelsi, friðhelgi og heilsu einstaklinga. Það höfum við ákveðið að gera. Við fjölluðum fyrr í vetur um afskaplega brogað frumvarp, að mínu mati, hæstv. þáverandi dómsmálaráðherra þar sem var verið að gera breytingar á hegningarlagaákvæði er varðar hatursorðræðu. Í þeirri umræðu vorum við einmitt að ræða um þennan mun á tjáningarfrelsi annars vegar og nauðsyn þess að verja minnihlutahópa fyrir orðníði, hatursorðræðu, meiðandi orðum. Þá erum við auðvitað að tala um svo meiðandi orð að þau beinlínis skaði. Hér erum við á sama stað, við erum kannski að tala þarna um að vernda fyrir ekki bara orðum heldur t.d. stafrænu kynferðisofbeldi. Það að verða fyrir slíku vitum við að hefur leitt til þess að fólk hefur tekið eigið líf í kjölfar slíks. Það er ofboðslega alvarlegt og af því að internetið er úti um allt og dreifing á efni gegn vilja einstaklings, niðurlægjandi efni, getur verið svo meiðandi held ég að löggjafinn eigi að stíga þar inn í og gera allt sem hægt er til að vernda einstaklinga.

Ég skil alveg hvers vegna við erum með 3. tölulið þessarar greinar sem varðar sérstaklega barnaklám af því að þar er um að ræða einstaklinga sem geta enga björg sér veitt eða svo gott sem, börn í þessum hryllilegu aðstæðum. Ég held að við ættum samt og hefðum átt við meðferð þessa máls í nefndinni að skoða hvort við þyrftum að taka fleiri einstaklinga þarna inn og taka tillit til fleiri aðstæðna án þess þó að skerða á einhvern hátt tjáningarfrelsið, sem er afar mikilvægt.

Mig langar aðeins að ræða líka um mikilvægi þess að fræða almenning. Hér hefur í dag verið talað um það þegar búnar eru til falsfréttir, beinlínis verið að bera fram ósannar upplýsingar í einhverjum tilgangi, t.d. í aðdraganda kosninga. Það var mikið fjallað um það fyrir síðustu kosningar og hæstv. forsætisráðherra varð hressilega fyrir barðinu á þeim ósannindum að hún ætlaði sér að hækka skatta. Það dundi í eyrum þjóðarinnar í aðdraganda kosninga, dreift af einstaklingum sem á þeim tíma voru taldir standa að baki annars stjórnarflokks sem hér er. Ég veit ekkert um það, það er eitthvað sem var í umræðunni. Í því sambandi langar mig að taka undir það sem hér hefur verið sagt um mikilvægi þess að efla gagnrýna hugsun hjá ungu fólki en við þurfum líka að efla meðvitund ungs fólks og fullorðins fólks um þá ábyrgð sem fylgir því að setja efni á internetið, dreifa efni, dreifa röngum upplýsingum, dreifa ósannindum og dreifa efni sem er meiðandi fyrir aðra.

Ég held að við ógnum ekkert tjáningarfrelsinu með því að reyna að efla meðvitund fólks fyrir því að ganga ekki svo nærri einstaklingum að þeir telji sér ekki vært á jörðinni eins og við vorum að tala um í sambandi við stafræn kynferðisbrot. Ég held að hlutverk löggjafans sé einmitt að reyna að vernda einstaklinga, við reynum eins og við getum að búa þannig um hnútana í þessari tæknivæddu veröld að við veitum ákveðið skjól og ákveðna vernd, a.m.k. á meðan við erum ekki búin að kenna fólki að finna til ábyrgðar sinnar og bera ábyrgð á gjörðum sínum og orðum í þessari tækniveröld.