149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[14:00]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Undir lok seinna andsvars áttaði ég mig á því að það má skilja mig sem svo að ég sé gegnheill forsjárhyggjueinstaklingur. Allt í einu fannst mér örla á því. Það mátti jafnvel skilja það sem svo að mér þætti eðlilegt að einstaklingar gætu bara ruðst inn og sagt: Fjarlægja, fjarlægja, fjarlægja, fjarlægja allt sem er mér ekki þóknanlegt.

Við vitum alveg hvert það fer. Þar er auðvitað mikil hætta á ferð. Mér hugnast ekki slík skoðun. Það er einmitt þarna sem umræðan um breytingu á hegningarlagaákvæðinu um hatursorðræðu varð, þ.e. munurinn á skoðanafrelsi og að reyna að stemma stigu við hatursorðræðu þar sem hvatt er til ólöglegs athæfis o.s.frv.

Ég átta mig líka mjög vel á því hvernig þetta er í þeim tilteknu dæmum þar sem er verið að skýla sér á bak við meint þjóðaröryggi þegar verið er að fela stríðsglæpi. Það er líka eitthvað. Maður skilur vel að þá þurfi dómsúrskurð eða eitthvað slíkt en ég hef samt smááhyggjur af því að auðvelt sé að fá sér stimplaðan dómsúrskurð í ákveðnum ríkjum þar sem stjórnvöld hafa komið dómurum sínum fyrir, mögulega andstætt lögum, án hæfisskilyrða, án þess að fara eftir leikreglum. (Forseti hringir.) Það er að gerast víða um heim og jafnvel nær okkur en okkur grunaði að gæti átt sér stað.