149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[14:05]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Umræða um þetta tiltekna frumvarp varðandi hatursorðræðu var vegna þess að inni í þeirri umræðu sem átti sér stað milli þeirrar sem hér stendur og þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra kom einmitt fram að það að vilja vernda einstaklinga, minnihlutahópa, fyrir níði og rógburði — og þá mjög öfgafullum meiðandi ummælum — væri á einhvern hátt skoðanakúgun. Þar með væri verið að takmarka tjáningarfrelsi.

Það er ekki þannig og í hinum vestræna heimi held ég að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því. Ég var að lesa fésbókarfærslu eftir hv. þingmann í Suðurkjördæmi um atvik sem átti sér stað í flóttamannabúðum á Ásbrú fyrir skömmu og ég held að öllum sé ljóst, og það má líka sjá í ummælakerfi á netinu, að tjáningarfrelsinu á Íslandi eru settar afskaplega litlar skorður þegar að þessu kemur. Ef svo væri ekki held ég að dómskerfið væri stíflað miðað við það sem ég hef lesið að undanförnu í tengslum við atvikið sem átti sér stað á Ásbrú. Ég tók eftir því að hv. þingmaður hristi hausinn og vill meina að tjáningarfrelsinu séu settar afskaplega miklar skorður. (Forseti hringir.) Hann minntist þó á þrjá dóma, tvo sýknudóma og einn sakfellingardóm.

Ég kemst víst ekki lengra.