149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn auðkenning og traustþjónusta fyrir rafræn viðskipti.

634. mál
[14:27]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Þetta er sérstaklega áhugavert í ljósi þess að hv. þingmaður þekkir talsvert til stafrænna öryggismála. Alveg eins og ég gat um í fyrra andsvari mínu ræðum við hugsanlega ekki nægilega mikið um neytendamál og neytendavernd og við ræðum tvímælalaust örugglega ekki nægilega mikið um stafræn öryggismál. Þau skipta ansi miklu máli. Ég er enginn sérfræðingur á þessu sviði og langt í frá, en ef maður fylgist svona þokkalega með fréttum sér maður að þetta er auðvitað vandi sem gerir ekkert annað en að aukast. Við erum að sjá að fjármálaþjónusta almennt í landinu er að breytast. Greiðslumiðlunarkerfin eru að breytast og í raun allt bankaumhverfið. Ég hef sagt það áður úr þessum stól að bankar eins og við þekkjum þá í dag verða ekki við lýði eftir nokkur ár. Ég held að það líði ekki langur tími þar til við verðum flest komin í viðskipti við Facebook-banka eða Google-banka eða hvað það mun heita.

Þegar öll fjármálaþjónusta og bankaþjónusta, sem er ein af stofnanaþjónustunum ef svo mætti að orði komast, tekur svona miklum breytingum mjög hratt þurfa þessi öryggismál svo sannarlega að vera fyrir hendi. Neytendurnir þurfa að geta treyst þessum rafrænu viðskiptum sem frumvarp þetta kemur m.a. inn á. Traust er lykilatriði í öllum viðskiptum, það þarf svo sem ekkert að segja það, og hefur verið það síðan viðskipti hófust. En þegar kemur að rafrænum viðskiptum, ekki síst á sviði fjármála, þurfum við að vanda okkur sérstaklega vel og ég veit að hv. þingmaður er formaður framtíðarnefndar og það væri áhugavert að vita hvort það kæmi eitthvað inn á borð þeirrar nefndar hvernig þróun í rafrænum viðskiptum annars vegar eða á fjármálamarkaði hins vegar sé til skoðunar á vettvangi þeirrar nefndar.

Kannski er ég kominn aðeins út fyrir efnið en fróðlegt væri að heyra það í því samhengi því að þetta er svo sannarlega eitthvað sem framtíðin fer að bjóða okkur upp á.