149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

891. mál
[14:33]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Hér ræðum við skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Eins og ég skil málið er það hluti af samkomulagi í tengslum við kjarasamninga, aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir kjarasamningum. Mig langar að fara nokkrum orðum almennt um húsnæðismálin. Húsnæðismál hafa verið í ólestri, ef svo má segja, í alllangan tíma sem á rætur að rekja til þess ástands sem skapaðist þegar hrunið varð, svokallað hrun eins og sumir segja, en hér varð afskaplega djúpt hrun 2008. Árin 2009 og 2010 verður samdráttur í hagkerfinu. Það vill svo til að núna í ár, 2019, erum við að upplifa fyrsta samdráttinn í landsframleiðslu, hún er að dragast saman, síðan 2010.

Það þarf ekki að rifja upp að hrunið var mikið högg fyrir íslenskt hagkerfi og m.a. talsvert högg fyrir íslenskan húsnæðismarkað. Ég man ekki alveg tölurnar en það var afskaplega lítið byggt á þessum árum þannig að það skapaðist ákveðin þörf eftir hrunið sem sveitarfélög, ekki síst Reykjavíkurborg, hafa verið að mæta núna með auknu framboði. Miðað við þær tölur sem ég hef séð horfir til betri vegar. Það hefur orðið talsverð aukning á íbúðum á markaðinn, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Mig minnir að við þurfum að hefja byggingu á allt að tæplega 2.000 íbúðum bara til að halda í við fólksfjölgunina þannig að við erum enn þá svolítið að vinna upp þann slaka sem myndaðist árið 2009 og 2010.

Það er sérstaklega mikið áhyggjuefni hvernig þessi markaður þróast. Þetta er ekki hefðbundinn markaður og við eigum að nálgast húsnæðismál að mínu mati út frá mannréttindum. Það eru mannréttindi að hafa þak yfir höfuðið. Við getum ekki látið eingöngu einkaaðila sjá um að sinna þessum markaði, ekki frekar en að við eigum að láta einkaaðila sinna eingöngu heilbrigðismálum eða menntamálum. Á húsnæðismarkaðnum verður það sem við köllum í hagfræðinni markaðsbrestur af ýmsum ástæðum þannig að hið opinbera hefur ákveðnum skyldum að gegna þegar kemur að uppbyggingu á húsnæðismarkaði. Það getur verið allt frá því að tryggja framboð á lóðum og hafa sveigjanlega reglugerð til að stuðla að því að hér sé byggt hratt og vel og örugglega. Einnig hafa stjórnvöld úrræði í lögum um almenn stofnframlög sem eru af hinu góða að mínu mati og við höfum séð fjöldann allan af nýjum óhagnaðardrifnum fasteignafélögum sem eru að byggja húsnæði eða hafa hug á því, m.a. á vegum verkalýðshreyfingarinnar, stúdenta og annarra aðila. Þetta er spennandi þróun og jákvæð að mínu mati því að við þurfum að mínu mati að byggja minni og ódýrari íbúðir, ekki bara fyrir ungt fólk heldur allt fólk. Lýðfræðileg þróun Íslands er að breytast talsvert, er í raun sláandi þróun. Það er svo merkilegt með spádóma í lýðfræði, þeir rætast furðumikið og við sjáum hvernig þróunin er í aldursdreifingu þjóðarinnar, t.d. meðal eldri borgara, fjöldi eldri borgara hefur tvöfaldast á 40 árum. Þetta kallar á ýmiss konar viðbrögð af hálfu hins opinbera, ekki síst í húsnæðismálum. Við lifum líka aðeins lengur o.s.frv.

Ég vil samt draga sérstaklega fram í þessari umræðu stöðu ungs fólks. Mér finnst við ekki ræða nægilega oft í þessum ræðustól þann veruleika sem blasir við ungu fólki á Íslandi. Við vitum að það er dýrt að búa á Íslandi. Það er eiginlega allt dýrt á Íslandi í alþjóðlegum samanburði, matur er dýr, almennar neysluvörur eru dýrar, tómstundir eru dýrar. Peningar eru dýrir, og hvernig fæ ég það út? Ég fæ það út með því að skoða vexti því að vextir eru ekkert annað en verð á peningum. Það er því allt dýrt á Íslandi, þar á meðal húsnæði. Ég hef talsverðar áhyggjur af stöðu ungs fólks í dag. Það skiptir gríðarlega miklu máli að unga kynslóðin Íslandi sjái hag sínum borgið að vera á Íslandi þótt ég hvetji engu að síður allt fólk, ekki bara ungt fólk, til að prófa að búa erlendis. Ég hef ekki enn þá hitt þann Íslending sem hefur prófað að búa erlendis og séð eftir því. Ég held að það víkki alltaf sjóndeildarhringinn. Hvort sem fólk fer til útlanda vegna náms eða vinnu held ég að það sé alltaf af hinu góða.

En til að það sé aðlaðandi að búa á Íslandi þurfa húsnæðismálin að vera í lagi. Ef við skoðum þær tölur sem lúta að neyslu fólks sjáum við að langstærsti hluti tekna fólks fer í húsnæðismál. Það er áhugavert að spyrja fólk hversu háu hlutfalli af tekjum það telji sig eyða í t.d. matvæli. Ég gerði þetta stundum þegar ég var að kenna á sínum tíma upp í háskóla og fékk iðulega þær tölur að fólk hélt að það eyddi kannski 20, 30, 40, 50, jafnvel 60% af sínum fjármunum í matvæli en ef við skoðum bara neyslukannanir Hagstofunnar sjáum við að hlutfall matvælakostnaðar af heildarútgjöldum einstaklingsins er miklu minna. Mig minnir að það sé um 14%, en húsnæðismálin með hita og rafmagni minnir mig að séu um 25–30%. Hér er um að ræða mjög mikið lífskjaramál, þ.e. að hafa hér húsnæðismarkað sem þjónar hagsmunum ungs fólks.

Þetta frumvarp snýst um að útfæra þetta séreignarsparnaðarform og það höfum við í Samfylkingunni stutt í ljósi þess að þetta er samkomulagsatriði milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Þá skiptir samt máli að hafa í huga að fólk sem nýtir sér séreignarsparnað sinn í þessum tilgangi er að sjálfsögðu að verja eigin fjármunum, ef svo má segja, fjármunum sem að öllu óbreyttu væru teknir út þegar sami einstaklingur færi á lífeyrisaldur. Fólk er svolítið að taka lán í sjálfu sér, ef svo má segja, til að mæta þeim mikla kostnaði sem það stendur frammi fyrir á meðan það er ungt.

Það er líka annar vinkill í þessu máli og hann er sá að þetta er skattfrjálst og vegna þess að við greiðum skatta þegar við tökum út lífeyri renna þær skatttekjur í ríkissjóð þess tíma, ríkissjóð framtíðarinnar. Með þessari leið er því sömuleiðis verið að taka framtíðarskatttekjur frá kynslóðum þess tíma. Það er áhugavert í þessu samhengi. Fólk er í raun að fá lán hjá sjálfu sér.

Í þriðja lagi hafa sveitarfélögin bent á að þau verða fyrir talsverðu tekjutapi vegna úrræðisins. Fyrst ég nefni sveitarfélögin finnst mér við í fjárlaganefnd oft verða vitni að því, en Samband íslenskra sveitarfélaga kemur iðulega til okkar, að sveitarfélögin hafa uppi svipaða gagnrýni sem er samtalsleysi milli sveitarfélaga og ríkisvaldsins, þessara tveggja lykilaðila hins opinbera. Ég vil hvetja ríkisstjórnina til að bæta þetta samtal milli sveitarfélaga og ríkis. Ég nefni mjög alvarlegt dæmi, fyrirhugaðan niðurskurð í Jöfnunarsjóði sveitarfélaga upp á 3,3 milljarða á tveimur árum. Mér heyrist á ráðherranum að hann ætli að bakka með þetta, ég vona það, en sveitarfélögin voru mjög harðorð. Af hverju á nú að fara að klípa einhvern pening af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga? Þetta er sjóður sem m.a. hjálpar sveitarfélögunum til að sinna þjónustu gagnvart fötluðum einstaklingum. Þetta er mjög sérkennilegt. En þetta er bara eitt dæmi. Annað dæmi er þegar sveitarfélögin komu til okkar og lýstu skoðun sinni á lífskjarasamningunum svokölluðu. Þau drógu það fram að samkvæmt útreikningum sveitarfélaga getur kostnaðurinn legið fyrst og fremst hjá sveitarfélögum, þ.e. meiri kostnaður lendir á sveitarfélögum en hjá ríkinu. Það er áhugaverð fullyrðing sem við þurfum kannski að skoða aðeins betur. Það er afskaplega auðvelt að vera örlátur á kostnað annarra og maður veltir fyrir sér hvort ríkið sé að gera það í þessu tilfelli.

Stóra málið er auðvitað að við þurfum að beita mörgum ráðum hins opinbera til að liðka til í húsnæðismálum. Ungt fólk á sífellt erfiðara með að komast inn á þennan markað. Erfiðleikarnir stafa fyrst og fremst af skorti á eigin fé. Þetta unga fólk nær ekki að safna fyrir útborgun í íbúð því að tekjurnar gefa ekki svigrúm fyrir sparnað á sama tíma og leiguverð fer t.d. hækkandi. Að auki hefur húsnæðisverð sífellt verið að hækka og hefur í nokkur ár hækkað umfram kaupmátt. Það er kannski að fara að snúast við núna, við eigum eftir að sjá hvernig það verður. Einu raunaðgerðir stjórnvalda síðustu ára sem snúa að aðstoð við kaup á fyrstu fasteign hafa einmitt falist í að hægt sé að nýta séreignarsparnaðinn sinn skattfrjálst við íbúðarkaup. Nú erum við einfaldlega að ræða bara um framlengingu á því úrræði. Þótt þessi aðgerð gagnist mörgum nýtist hún fyrst og fremst þeim sem hafa hærri tekjurnar. Það kemur í sjálfu sér ekkert á óvart en samkvæmt tölum Íbúðalánasjóðs, og takið hér eftir, er aðeins um helmingur leigjenda með séreignarsparnað og eftir því sem tekjur leigjenda eru lægri verða líkurnar eðlilega minni. Sá sem er tekjulágur á minna í séreignarsparnaði en tekjuhár.

Þetta er kannski dæmi um að við snúum stundum hlutunum á hvolf hvað þetta varðar en ég ítreka að ég er ekki á móti þessu úrræði eins og staðan er núna. Þetta eru bara áhugaverðir punktar sem við þurfum að hafa í huga. Það úrræði stjórnvalda að veita þeim sem safna sér séreign skattleysi til að borga niður húsnæðislánin sín gagnast því fyrst og fremst tekjuhærri einstaklingum samfélagsins.

Eins og ég gat um áðan er þetta frumvarp sagt vera framhald af aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um stuðning til handa einstaklingum til að eignast eigið húsnæði og stuðla að lægri skuldsetningu vegna íbúðarhúsnæðis sem og liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru um yfirlýsingu vegna lífskjarasamningana. Fyrir utan þessa framlengingu á séreignarsparnaðarúrræðinu eru húsnæðistillögur ríkisstjórnarinnar að mestu óútfærðar og ófjármagnaðar. Það er áhugavert. Maður hefur fylgst með stjórnmálum ansi lengi og þegar aðilar vinnumarkaðarins í gamla daga fengu stjórnvöld að borðinu var sérstaklega gætt að því að þær aðgerðir sem stjórnvöld voru að leggja inn í púkkið væru ekki óútfærðar, en það er núna. Við sjáum þetta ekki bara í húsnæðismálum, við sjáum þetta líka í skattamálunum. Ég á enn þá eftir að sjá hvernig ríkisstjórnin ætlar að útfæra þær hugmyndir sem voru kynntar í tengslum við lífskjarasamningana sem lúta að því að setja þriðja skattþrepið í tekjuskattskerfið og tryggja með einhverjum hætti að 10.000-kallinn renni fyrst og fremst til hinna tekjulægri. Ég sé ekki alveg hvernig það getur virkað án þess að breyta persónuafslættinum að sama skapi. Þetta er sem sagt óútfært og eins og ég sagði þá sáu í gamla daga aðilar vinnumarkaðarins alltaf fyrir því að þegar ríkið kom að lausn kjarasamninga væri upp á kommu nákvæmlega ljóst hverjar aðgerðir ríkisstjórnarinnar væru. Við eigum eftir að fá þessa útfærslu frá fjármálaráðuneytinu og kannski fleiri ráðuneytum, hvernig þetta verður. Eins og tíska er að segja í stjórnmálum hræða sporin og við þurfum að vakta sérstaklega vel með hvaða hætti þessar skattatillögur annars vegar og húsnæðistillögur hins vegar verða útfærðar. Smáatriðin skipta máli hér og það skiptir máli að við í stjórnarandstöðu og ekki síst kannski aðilar vinnumarkaðarins sem gerðu þennan samning vöktum sérstaklega vel þessa útfærslu. Ég ber fullt traust til aðila vinnumarkaðarins að gera það. Við hljótum að fara að sjá til lands þar.

Samhliða þessu ræðum við ríkisfjármálin til næstu fimm ára. Við getum ekki rætt um ríkisfjármál án þess að ræða um skattamál og öfugt. Eins og var rætt í morgun erum við með stærsta þingmál hvers þings að mínu mati, alla vega í krónutölum talið, það er 5.000 milljarða kr. fjármálaáætlun sem við erum enn að bíða eftir að verði hugsanlega breytt í meðförum ríkisstjórnar og hugsanlega í meðförum fjárlaganefndar. Samhliða fjármálaáætlun erum við með fjármálastefnu sem er líka til meðferðar hjá fjárlaganefnd þannig að það er margt að gerast hvað þetta varðar, herra forseti.

Þetta voru nokkur atriði sem mig langaði að tæpa á í þessu máli. Samhliða þessum aðgerðum í húsnæðismálum og mikilvægi málaflokksins er mjög áhugavert að sjá að málefnasviðið húsnæðismál eins og það heitir í fjármálastefnunni fer lækkandi næstu fimm árin. Það er mjög sérkennilegt, finnst mér, að þróunin sé á niðurleið. Ef við berum saman opinber fjárframlög til húsnæðismála 2019 og 2024 erum við að fara niður, herra forseti.