149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

virðisaukaskattur.

52. mál
[15:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Smári McCarthy) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil aðeins taka undir með hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson um að virðisaukaskattskerfið á Íslandi er hrikalegt. Það er hrikalegt af mörgum ástæðum, kannski fyrst og fremst þeirri að þetta er næsthæsti virðisaukaskattur heims. Þegar það er skoðað hversu miklar afleiðingar mismunandi tegundir skatta hafa á mismunandi fólk í samfélaginu er augljóst að virðisaukaskattur er einn sá allra „regressívasti“ skattur sem hægt er að búa til. Hann hefur áberandi meiri vond áhrif á fólk sem hefur lágar tekjur og hefur ekki sambærileg áhrif á fólk sem hefur háar tekjur. Þetta mál er eitt af ótrúlega mörgum réttlætis- og jafnaðarmálum sem væri hægt að fara í sem snúa að virðisaukaskattskerfinu.

Í nefndinni komu fram mjög góðar athugasemdir um að virðisaukaskattskerfið ætti í rauninni helst ekki að vera með neinum undantekningum. Ég tek alveg undir það. En ef við ætlum að sama skapi að bíða eftir því að virðisaukaskattskerfið hætti allt í einu að vera galið á Íslandi þurfum við að bíða ansi lengi.

Þegar allt kemur til alls er, a.m.k. að mínu mati, skárra að reyna að laga virðisaukaskattskerfið með þessari salamí-aðferð í ljósi þess að enn hefur ekki verið gert það sem m.a. kom fram í tillögum samráðsvettvangs um aukna hagsæld á sínum tíma, að lækka virðisaukaskattinn töluvert og jafna hann út. Ekki þar fyrir, mér fannst þær tillögur ganga út frá því að vera með of hátt virðisaukaskattsmark. Það mætti fara enn þá neðar en auðvitað þarf þá að skattleggja annars staðar á móti og kannski með prógressívari hætti.