149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

virðisaukaskattur.

52. mál
[15:10]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir andsvarið og hugleiðingarnar. Þetta er kannski nákvæmlega málið, eins ánægð og ég er með þessa breytingu og mér þykir hún réttlætismál er ég ekkert endilega ánægð með að við skyldum krukka í þetta kerfi sem hv. þingmaður kallar galið og ég fer langleiðina í að vera sammála honum með uppsetninguna á því. Við erum ánægð með málið í dag, það getur komið eitthvað annað á morgun og við erum að tala um mikið inngrip í neyslu. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, áhrifin eru mismunandi mikil á mismunandi þjóðfélagshópa, sem er akkúrat ástæðan fyrir því að við stöndum hér með þetta mál í höndunum. Miklu eðlilegra og hreinna væri að ná fram breytingum með því að ráðast að rótum vandans og fara í gagngera endurskoðun á þessu kerfi heilt yfir.

Eins og ég segi finnst mér þetta mál bara vera leiðrétting á rangri stöðu sem hefur viðgengist töluvert lengi og ég get þess vegna með mjög góðri samvisku stutt það heils hugar þrátt fyrir að það gangi gegn þeirri stóru mynd sem ég hef af því hvernig við ættum að tækla virðisaukaskattskerfið okkar.