149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

virðisaukaskattur.

52. mál
[15:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Smári McCarthy) (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt að nota orðið leiðréttingu. Þetta er í rauninni leiðrétting á vondu kerfi. Það að fara yfir undanþágurnar sem eru til staðar í dag, bæði undanþágur almennt en líka þau tilfelli þar sem þetta er fært niður í neðra þrep virðisaukaskatts, sýnir svolítið hvernig við eltumst við ákveðna pólitík í þessum skattamálum. Auðvitað eru skattar að einhverju leyti pólitískir, ekki síst hvaða skattar eru lagðir á og hversu háir þeir eru. Það er bara sumt í þessu sem er mjög erfitt að réttlæta.

Þetta mál er svolítið augljóst, það er augljóst að þetta skuli leiðrétta. En ég er sammála því sem kom fram í máli hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur um að auðvitað ættu lyf líka verið í þessum pakka. En um leið og maður fer að kroppa í þetta er maður kannski farinn að að ganga ákveðinn veg. Ég held að það sé skárra að fara þann veg en að skilja þetta eftir eins og það stendur í dag. Ég er þó algjörlega sammála hv. þingmanni um að auðvitað ættum við ekki að þurfa þess. Það er svolítið kjarni málsins vegna þess að það að veiðar og basarsala séu í sérflokki og að við þurfum að fara í þá leiki að telja upp tollskrárnúmer til að hafa hlutina rétta gagnvart einhverju gagnagrunnskerfi sýnir að röng hugsun er í gangi. Ef við værum með réttari hugsun eyddum við kannski minna afli í leiðréttingu frá grundvallaróréttlæti virðisaukaskattskerfisins hverju sinni og kannski meira púðri í að skoða gjaldskrár ríkisins og jafnvel að athuga hvort tekjuskattskerfið virki eins og við viljum að það geri.