149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

virðisaukaskattur.

52. mál
[15:16]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil í upphafi hrósa sérstaklega 1. flutningsmanni þessa frumvarps, hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, fyrir að leggja það fram og leiða það til lykta. Ég held að þetta mál sé að öllu leyti til góða. Ég sé að í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar virtust allir ánægðir með frumvarpið. Þetta er eitt af þessum frumvörpum sem fær mann til að hugsa: Af hverju var ekki löngu búið að þessu? Þetta er það sjálfsagður og eðlilegur hlutur í mínum huga, að lækka skatta með þessum hætti á þessar vörur. Ég ítreka þakkir mínar og hrós til hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur. Þetta skiptir máli.

Ég óttast ekki að við séum að flækja skattkerfið of mikið og annað slíkt. Ég hef aldrei verið sérstaklega hræddur við flókið skattkerfi og þetta flækir það ekkert. Við sjáum að í virðisaukaskattinum eru ekki bara tvö þrep heldur þrjú þrep. Það er auðvitað 24% þrepið, svo er það 11% þrepið, en svo er það 0% þrepið. Ég sé að það eru smávangaveltur um þetta í nefndarálitinu, að það hafi verið rætt hvort fella ætti með öllu niður virðisaukaskattinn af þeim vörum sem frumvarpið varðar. Niðurstaðan varð að gera það ekki, a.m.k. ekki að sinni. En við vitum að ýmis starfsemi er án virðisaukaskatts og mætti þá skoða, frú forseti, í framhaldinu hvort þessar vörur ættu heima þar.

Til upplýsingar er íþróttastarfsemi án virðisaukaskatts, aðgangur að sundlaugum og íþróttamótum, íþróttakappleikjum. Almenningssamgöngur eru þarna. Vátryggingastarfsemi er án virðisaukaskatts, verðbréfamiðlun, happdrætti og getraunastarfsemi, fasteignaleiga, útfararþjónusta. Það er ýmis starfsemi sem er án virðisaukaskatts í núgildandi kerfi. Það er ágætt að hafa það í huga gagnvart þeim röddum sem oft heyrast þegar svona þjóðþrifamál fara í gegn: „Þið eruð að flækja skattkerfið, ekki gera það.“ Við erum ekki að því. Skattkerfið býður einmitt upp á þrenns konar skattlagningu innan virðisaukaskattskerfisins og við erum einfaldlega hér að flytja vörur úr 24% skattþrepinu niður í 11% skattþrepið.

Ef við lítum aðeins á hvað er í 11% skattþrepinu eru þar fjöldamargar vörur sem pólitísk ákvörðun hefur verið tekin um að eigi heima í neðra skattþrepi virðisaukaskattsins í stað hins efra. Þarna eru geisladiskar, hljómplötur og segulbönd, aðgangseyrir að baðhúsum, ferðaleiðsögn, sala tímarita, dagblaða, áskriftargjöld að blöðum, sala bóka — matvörur, það er kannski einn stærsti þátturinn hérna. Það hefur aldeilis verið tekist á um það í þessum sal hversu hár virðisaukaskatturinn eigi að vera á matvöru. Þing fyrri ára hafa bara tekið þá pólitísku ákvörðun að matur eigi t.d. heima í lægra skattþrepi virðisaukaskatts. Hér erum við vonandi að gera það með sama hætti gagnvart þeim vörum sem þetta frumvarp hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur tekur til. Mér finnst þau rök að við séum að flækja kerfið ekki eiga sérstaklega vel við.

Sömuleiðis sjáum við að þetta vekur upp spurningar um hvaða vörur aðrar eru í neðra þrepi virðisaukaskattsins. Það sem vekur mesta athygli þar er að stór hluti ferðaþjónustunnar er í neðra þrepi virðisaukaskattsþrepsins. Ég las grein í Morgunblaðinu eftir hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í morgun þar sem hún amast yfir ræðu minni um skattamál í vikunni og sérstaklega af því að ég talaði um að ferðaþjónustan nyti skattastyrkja með því að vera í neðra þrepi virðisaukaskattsins. Henni blöskrar notkun orðsins skattastyrkur. En mig langar að upplýsa hv. þingmann og þingheim allan og þjóðina um það hvaðan ég fæ þessi orð, skattastyrkur til ferðaþjónustunnar, vegna þeirrar stöðu að stór hluti hennar er í neðra þrepinu. Það get ég gert með gleði. Þetta orðalag má finna hjá hæstv. fjármálaráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarna Benediktssyni. Þetta stendur einfaldlega í fjármálaáætlun Sjálfstæðismanna. Þar er talað um skattastyrki til ferðaþjónustunnar. Þetta er því mjög sérkennileg gagnrýni frá ritara Sjálfstæðisflokksins, sem ég vona að sé að hlusta á mig, í ljósi þess að ég leyfi mér að nota orð sem hennar eigin formaður hefur notað og skrifað í þetta stóra plagg sitt, fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Ef hún hefur eitthvað við þetta orðalag að athuga ættu heimatökin að vera hæg hvað það varðar. Hún getur tekið það mál upp í Valhöll.

Frú forseti. Mér leiðist ekki að tala um skatta. Skattar eru pólitík og pólitík er skattar. Þess vegna fagna ég svona málum og ég fagna því að við getum tekið pólitíska afstöðu um hvernig skattkerfið eigi að vera uppbyggt. Við eigum ekkert að vera að hlusta á þessar raddir sem alltaf heyrast þegar við viljum breyta sköttum, að ekki megi flækja kerfið. Ég man hér á árum áður að alls ekki mátti fjölga þrepum í tekjuskattskerfinu. Það átti að vera algjör dauði og djöfull að við hefðum svo flókið tekjuskattskerfi. Það átti bara að vera eitt flatt þrep. Á sama tíma voru nánast allar þjóðir sem við berum okkur helst saman við með mörg þrep í tekjuskattinum. Ég veit ekki betur en að við höfum verið með þrjú þrep eftir hrunið og það fór ekkert á hvolf hvað það varðar. Við getum vel haft fjölþrepaskattkerfi eins og nánast allar þjóðir sem við berum okkur saman við hafa, hvort sem litið er til tekjuskattsins eða virðisaukaskattskerfisins.

Ég hef stundum sagt úr þessum stól að mér finnist hægri menn og Sjálfstæðismenn kannski helst veigra sér við að taka umræðu um skattamál almennt. Skattar eru í þeirra huga eitthvert skammaryrði. Mér finnst það alls ekki eiga að vera þannig. Skattar eru það gjald sem við greiðum fyrir að vera í siðuðu samfélagi, eins og þar stendur. Skattar eru innheimtir til að fjármagna hér opinbera innviði, velferðarkerfið, spítala, sjúkrahús, skóla, barnabótakerfi, vegi, löggæslu o.s.frv. Skattar eru fengnir til að fjármagna kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins þannig að við eigum ekki að vera hrædd við að taka þá umræðu með hvaða hætti skattarnir eigi að vera uppbyggðir.

Fyrst ég kom inn á grein hv. þm. Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur varðandi skattamálin í Morgunblaðinu í morgun — hún talar um að vinstri menn vilji bara hækka skatta — er ekki rétt að vinstri menn vilji alltaf hækka skatta. Hið rétta í þessu er að við viljum hækka suma skatta en lækka aðra. Við viljum það. Og dæmin og sagan sýnir það einmitt. Munurinn á okkur í Samfylkingunni og Sjálfstæðismönnum er kannski sá að við viljum lækka skatta á venjulegt fólk á meðan Sjálfstæðismenn vilja lækka skatta á stórútgerðina og auðmenn. Verkin sýna það. Mig langar, fyrst ég hef þokkalega rúman tíma hér, til að fara aðeins yfir það hvaða skattalækkunum Samfylkingin hefur staðið fyrir þegar hagkerfið hefur boðið upp á það, því að Samfylkingin hefur margoft staðið fyrir skattalækkunum. Þau orð frá Sjálfstæðismönnum að við stöndum eingöngu í þessum ræðustól til að hækka skatta eiga ekki við rök að styðjast.

Samfylkingin hefur lækkað tekjuskatt einstaklinga. Hvernig gerðum við það? Við vorum ekki með flata lækkun tekjuskattsprósentunnar sem gagnast best þeim sem hæstar tekjurnar hafa. Það segir sig sjálft að ef við lækkum tekjuskattsprósentuna fást fleiri krónur í vasann eftir því sem tekjurnar verða hærri. Hvernig lækkaði Samfylkingin, í samstarfi við aðra flokka á sínum tíma, tekjuskatt einstaklinga? Við gerðum það með því að hækka persónuafsláttinn. Samspil persónuafsláttar og skattprósentu skapar skattleysismörkin. Við höfum meira að segja lækkað fjármagnstekjuskatt þó að við höfum líka kallað eftir að hann gæti verið hærri hér. Fjármagnstekjuskattur á Íslandi er lægstur af öllum Norðurlöndunum. Hann er sá lægsti sem mér finnst afskaplega sérkennilegt í ljósi þess að eignaójöfnuður er talsverður hér á landi. Því til upprifjunar er vert að hafa í huga að einungis 2% íslenskra fjölskyldna greiddu fjármagnstekjuskatt vegna sölu á hlutabréfum. Við sjáum að 1% ríkustu landsmanna á meiri hreinar eignir, samkvæmt skattframtölum, en 80% Íslendinga. Hér má vel hækka fjármagnstekjuskatt án þess að allt fari á hliðina að mínu mati. En ég opnaði á þetta í ljósi þess að Samfylkingin hefur lækkað fjármagnstekjuskatt. Hvernig gerðum við það? Við lækkuðum ekki prósentuna. Við innleiddum frítekjumark. Það þurrkaði út skattskyldu um 90% skattgreiðenda. Þetta er skattalækkun til venjulegs fólks sem er með hóflegar fjármagnstekjur. Þetta er sanngjörn pólitík sem sýnir að hægt er að lækka skatta með þeim hætti að það gagnist sem flestum, ekki síst lágtekju- og millitekjufólki, bara venjulegu fólki. Frítekjumark þekktist ekki til að byrja með. Frítekjumarkið var innleitt á vakt Samfylkingarinnar og annarra flokka til að lækka skatta hjá fólki.

Stundum er sagt að við viljum ekki lækka skatta á fyrirtæki. En Samfylkingin hefur lækkað skatta á fyrirtæki. Hvernig gerðum við það? Við innleiddum skattfrádrátt vegna fjárfestinga í hlutabréfum í nýsköpunarfyrirtækjum. Við höfum gert það. Við viljum stuðla að sanngjörnu skattkerfi og við gerum það með þessum hætti. Við höfum lækkað virðisaukaskattinn eins og þetta frumvarp hv. þm. Þórhildar Sunnu lýtur að. Við stuðluðum að því ásamt öðrum flokkum að lækka virðisaukaskatt með átakinu Allir vinna, sem var sett á fót árið 2010. Eftir því sem ég best veit skilaði það talsverðum árangri. Samkvæmt skýrslu Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands lækkaði skattbyrðin hjá millitekju- og lágtekjuhópum eftir hrunið. Það var út af pólitík þess tíma. Vinstri stjórnin sem þá var við stjórnvölinn ákvað að lækka skattbyrðina þrátt fyrir vonlausa stöðu ríkissjóðs á þeim tíma. Halli ríkissjóðs var upp á meira en 200 milljarða 2009–2010, en engu að síður tókst vinstri stjórninni að draga úr skattbyrði lágtekju- og millitekjuhópa, en hún jókst hjá hátekjuhópum, eins og á að vera. Við eigum að hafa sanngjarnt skattkerfi sem nær til breiðu bakanna. Það er misskipting í þessu samfélagi og vissir hópar geta lagt meira af mörkum, sérstaklega í ljósi þess að fólk hefur verið að kalla eftir meiri fjármunum í spítalana og skólana, í velferðarkerfið. Hvort sem fólk er hægra megin eða vinstra megin við miðju er það nánast samdóma álit kjósenda að kalla eftir frekari fjárfestingu í opinberum innviðum. Við erum a.m.k. heiðarleg með það og segjum: Já, ef við viljum fá meiri pening í Landspítalann vitið þið að við verðum að ná þeim peningum með skatttekjum. Samfylkingin trúir á samtryggingarkerfið.

Hin leiðin er há þjónustugjöld, sjúklingagjöld og skólagjöld. Við viljum forðast það í lengstu lög að innleiða slíkt kerfi. Það er thatcherisminn svokallaði, að maður borgar eftir því sem maður notar. Við viljum frekar hafa samtryggingarkerfi þar sem maður greiðir skatt sem rennur almennt til uppbyggingar opinberrar þjónustu þannig að gjöldin markist ekki af því að sá sem veikist þurfi einfaldlega að greiða fyrir þá þjónustu sem hann nýtir á þeim tíma. Það er ekki samtryggingarkerfi. Það er ekki norræna leiðin svokallaða.

Þetta eru atriði sem ég vildi draga hér fram og svara Sjálfstæðismönnum því að þeir þreytast ekki á að reyna að búa til einhverja mýtu um að vinstri menn vilji alltaf hækka skatta. Vinstri menn geta vel lækkað skatta þegar það hentar, en við gerum það með sanngjörnum og almennum hætti. Við gerum það gagnvart venjulegu fólki, gagnvart millitekjuhópum og lágtekjuhópum, en við sjáum enga sérstaka ástæðu til að lækka eða hafa hér lægsta fjármagnstekjuskatt á öllum Norðurlöndunum.

Við sjáum enga sérstaka ástæðu til að lækka veiðileyfagjöldin það mikið að þau séu orðin álíka há og tóbaksgjaldið. Veiðileyfagjald er aðgöngumiði sjávarútvegsfyrirtækja að einum gjöfulustu fiskimiðum jarðar. Þetta er pólitík þeirra ráðherra, sem eiga að vera hér en eru einhvers staðar annars staðar, sem við sjáum endurspeglast í tvennum fjárlögum þessarar ríkisstjórnar og síðan í fjármálaáætlun og fjármálastefnu. Þessi hægri mantra, ef svo má segja, ræður ríkjum hér. Hér er það hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson sem heldur um stjórnvölinn þegar kemur að skattamálunum. Það er miður.

Sjálfstæðismenn þreytast ekki á að benda á að þeir vilji alltaf lækka skatta en bent hefur verið á að það eru ansi margir skattar sem hafa hækkað á þeirra vakt og síðan hafa margir skattar einfaldlega ekki breyst þó að þeir hafi haft tækifæri til að afnema þá eða lækka. Oft segja þeir eitt gagnvart sinni grasrót, gagnvart sínum hverfafélögum, en gera síðan allt aðra hluti þegar þeir eru við stjórnvölinn. Það er nú svolítið merkilegt með Sjálfstæðisflokkinn að hann hagar sér oft með allt öðrum hætti en hann talar. Þetta er flokkur sem er búinn að vera stóran hluta lýðveldistímans við stjórnvölinn þannig að ef fólk telur að hlutirnir gætu verið öðruvísi er ábyrgðin þokkalega skýr að mínu mati, frú forseti.

Mig langaði aðeins að útvíkka umræðuna. Ég veit að við erum að tala um breytingu á virðisaukaskatti, lítið afmarkað mál sem skiptir samt miklu máli. Við eigum að tala oftar um skatta og hvernig skattkerfið er að þróast. Skattar þurfa líka að vera hóflegir. Nú er komin niðursveifla í hagkerfið. Við erum að upplifa mestu hagsveiflu í tæplega 30 ár, að hruninu undanskildu. Ég segi það úr þessum stól og í þessum sal að við skattleggjum okkur ekki út úr kreppunni. Við þurfum engu að síður að standa vörð um hið opinbera, þetta sem við eigum öll saman og þetta sem við þurfum að nýta okkur þegar kreppir að, t.d. í heilbrigðismálum eða þegar við eldumst eða lendum í slysi. Við eigum, að mínu mati, að lyfta svolítið þessari umræðu um samtrygginguna.

Ég sagði hér í morgun, til að sýna hversu fá við erum, að á hverjum einasta degi fæðast jafn margir einstaklingar í heiminum og búa á Íslandi. Í dag fæðast 360.000 einstaklingar. Það fæddust 360.000 einstaklingar í gær og það gerist einnig á morgun. Þetta er lítið samfélag, að mörgu leyti gott samfélag sem gæti þó verið betra. Það er svo sem markmið allra, sama í hvaða flokki þeir eru, að fólk vill bæta lífskjör á Íslandi. Í sumum tilfellum getur okkur greint á um markmiðin en oft um leiðirnar. Í ljósi þess hve fá við erum erum við líka ríkt samfélag. Við erum tíunda ríkasta land í heimi. Það segir okkur að við getum gert svo miklu betur, frú forseti.

Við þurfum ekki að hafa þannig kerfi að það að vera öryrki á Íslandi þýði fátækt. Hvenær var það ákveðið? Af hverju þarf það að eldast á Íslandi í allt of mörgum tilfellum að þýða fátækt, óöryggi og óvissu? Þetta þarf ekki að vera svona. Auðvitað veit ég að við gerum ekki allt fyrir alla og það er enginn að tala um það, en við getum gert svo miklu betur. Við getum náð til þessara einstaklinga sem eru alltaf skildir eftir, hvort sem hér er hagvöxtur eða samdráttur. Það er sorglegt að sú staða skuli vera uppi árum saman. Auðvitað sjáum við fram á framfarir á ýmsum sviðum, en enn erum við með um 6.000 börn sem búa við fátækt eða skerta efnahagslega möguleika á að taka þátt í samfélaginu. Það er fátt sorglegra í tíunda ríkasta landi í heimi en fátækt barn sem getur ekki eða fær ekki að nýta sömu tækifæri og jafnaldrarnir. Það er úrlausnarefni sem ég veit að allir eru sammála um að þarf að leysa. Það er að sjálfsögðu enginn hlynntur fátækt barna. Notum þá þau úrræði sem við höfum, t.d. í gegnum skattkerfið. Sumir skattar ættu að hækka til að mæta þeim áskorunum og vanda sem samfélagið glímir við, aðrir ættu að lækka. Þetta er ekki svart/hvítur heimur, frú forseti. Þess vegna verður manni kannski heitt í hamsi því að maður veit að tækifærin eru fyrir hendi. Það er hægt að gera betur. Ákvarðanir sem eru teknar við ríkisstjórnarborðið eru beinlínis að færa þetta samfélag í þá átt að hanna kerfi í þágu hinna ríku, sem er algjör óþarfi í þessari litlu fjölskyldu sem Íslendingar mynda.

Frú forseti. Nú sé ég að tími minn er að renna út. Mig langar enn og aftur að ítreka þakkir fyrir þetta mál og ég styð það heils hugar. Ég ítreka að við eigum ekki að vera hrædd við að krukka aðeins í skattkerfið með það að markmiði að gera það einfaldlega sanngjarnara þó að einn liður eða tveir bætist við þá lagagrein sem hér er að breytast.