149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

virðisaukaskattur.

52. mál
[15:38]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég svara seinni spurningunni fyrst: Nei, ég óttast ekki þetta flækjustig, sérstaklega í ljósi þess að við höfum í sjálfu sér þrjú þrep nú þegar. Við erum með 11% og 24% en við erum líka með 0%. Við erum með ákveðna starfsemi í 0% þrepi. Við erum þannig í sjálfu sér ekki að búa til nýtt þrep með þessu kerfi. Við erum að færa vörur á milli kerfa með pólitískum rökum og erum að setja þessar vörur á þann stað þar sem þær eiga heima og flækjustig eykst að mínu mati ekki við það. Þó að við værum að innleiða hér nýtt skattþrep held ég, eins og hv. þingmaður gat um, að við þolum það vel í ljósi þess hvernig tæknin er hér á landi og hefur verið lengi.

Hv. þingmaður nefnir sömuleiðis stöðuna í Bretlandi. Lengi hefur 0% söluskattur verið á barnavörur þar. Það berast ekki margar fregnir frá Bretlandi um að skattkerfið þar sé þeim ofviða, ef svo má segja, hvað það varðar. Eins og margt í skattamálum er bara pólitísk ákvörðun hversu langt við viljum ganga.

Ég er mikill talsmaður fjárhagslegra hvata og þeir hafa áhrif á okkur. Við kennum það í hagfræðinni og ég nefndi það sérstaklega. Ég kenndi hagfræði uppi í háskóla og þar fjallaði ég sérstaklega um að það sé eitt af grundvallaratriðum hagfræðinnar að fjárhagslegir hvatar, „incentives“ á ensku, hafi áhrif á hegðun fólks. Skattar eru að sjálfsögðu fjárhagslegur hvati. Ég er t.d. mikill talsmaður sykurskatts. Við vorum með sykurskatt hér á árum áður en hann var tiltölulega lágur. Hann hafði kannski ekki þau áhrif sem hann hefði átt að hafa. Sykurneysla er talsvert mikil hér á landi og ýmis ytri kostnaður vegna sykurneyslu flyst yfir á almenna heilbrigðiskerfið, vanlíðan o.s.frv. Við getum vel tekið þá pólitísku ákvörðun að hafa sykur dýrari. Auðvitað eykur það kostnað þjóðarinnar að vissu leyti, en við erum frekar að dreifa þeim kostnaði sem engu að síður verður. Mengunarskattar eru ein leið sem við eigum að skoða miklu meira. (Forseti hringir.) Við eigum að nota þau úrræði sem skattkerfið felur í sér og ná fram pólitískum markmiðum eða breyttri hegðun gegnum þessa hvata.