149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

virðisaukaskattur.

52. mál
[15:41]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið en vil halda áfram í kennslustundinni sem ég þarf nauðsynlega á að halda. Maður veltir líka fyrir sér þessu með þjónustugjöldin sem hv. þingmaður kom inn á í staðinn fyrir að taka ákvörðun um að leggja skatta á ýmsa aðra hluti. Eigum við að tala um veiðileyfi í laxveiðiám, er ekki rétt hjá mér að enginn virðisaukaskattur sé á því? Við höfum hins vegar ákveðið að rukka þjónustugjöld við komu á slysadeild. Við leggjum gjöld á ýmiss konar þjónustu sem sjúkir þurfa að sækja. Um leið og einstaklingur verður 18 ára en er enn námsmaður er hann farinn að borga full gjöld á öllum stöðum. Þar er engin vægð. Það er enginn afsláttur fyrir menntskælinga eða framhaldsskólanema veikist þeir herfilega og eru ekki með neina framfærslu. Hvernig fer það þá?

Vissulega er ég komin aðeins út fyrir efnið en ég er að velta þessu fyrir mér út af þeim gagnrýnisröddum sem hafa heyrst um að þetta frumvarp flæki kerfið. Er ekki betra að sleppa því þá frekar að leggja á þjónustugjöld úti um allt og hafa þá einfaldara skattkerfi þannig að ákveðnar vörur séu í lægra skattþrepi virðisauka en aðrar í hærra þrepi og sleppa þá þeirri ósanngjörnu skattheimtu sem þjónustugjöldin eru?