149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

virðisaukaskattur.

52. mál
[15:45]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég er ekki komin hingað upp til að lengja umræðuna heldur út af því að ég átti því miður ekki kost á því að taka þátt í fyrri umræðu um málið. Þetta er gríðarlega gott mál, enda er ég í hópi þeirra hv. þingmanna sem leggja málið fram. Eins og áður hefur komið fram er með málinu verið að leggja til að virðisaukaskattur á tíðavörur og getnaðarvarnir lækki í lægra þrep virðisaukaskatts sem ég held að sé gríðarlega mikilvægt fyrir konur til að bæta aðgengi þeirra og svo sem allra að getnaðarvörnum en síðan líka að tíðavörum sem er ekki síður mikilvægt. Ég held að allir geri sér grein fyrir því að þær eru býsna mikil nauðsynjavara, a.m.k. fyrir okkur konur. Það er eiginlega alveg furðulegt að þær hafi ratað í efra þrep virðisaukaskattsins. Þetta er nauðsynleg hreinlætisvara og eins og við þekkjum víða í löndum þar sem er mikil fátækt er staðan hreinlega þannig að konur geta ekki sinnt vinnu eða farið í skóla á þeim dögum sem þeim blæðir og það væri mjög sorglegt ef sú væri staðan hér. Ég held að sem betur fer séum við nokkuð vel stödd hvað það varðar hér á landi.

Mig langaði að hrósa meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar fyrir þær breytingar sem hann leggur til á málinu, þ.e. að taka tillit til þeirra breytinga sem eru að verða á tíðavörum um þessar mundir. Þær eru að verða miklu meira margnota en þær hafa nokkurn tíma verið, ég nefni margnota dömubindi, álfabikarinn og fleira slíkt, að ég tali ekki um nærbuxur þar sem þetta er innfellt. Það er algjör snilld. — Nú sný ég mér alltaf að forseta. Það er ekki ætlunin að eiga þetta samtal eingöngu við hæstv. forseta, afsakið það. — Þetta er algjör snilld og þetta er gríðarlega mikilvæg og jákvæð breyting sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur hér til á málinu þannig að þetta nái örugglega yfir þær vörur líka sem ég vil fullyrða að hafi sannarlega verið vilji þeirra hv. þingmanna sem lögðu málið fram.

Mig langaði aðeins, frú forseti, að ræða líka um bleika skattinn sem á sér tvær birtingarmyndir, annars vegar í skattlagningu á nauðsynjavörum fyrir konur og hins vegar verðlagningu seljenda og framleiðenda. Neytendasvið New York borgar gerði ótrúlega ítarlega og vandaða rannsókn sem var birt í desember árið 2015. Mig langaði að vekja athygli þingheims á þeirri rannsókn af því að þar koma fram sláandi niðurstöður. Neytendasviðið bar saman verð á yfir 800 vörum. Markmiðið var einfaldlega að skoða hvort munur væri á vörum sem væru markaðssettar fyrir konur annars vegar og vörum sem væru markaðssettar fyrir karla hins vegar. Niðurstöðurnar voru sláandi, frú forseti. Að meðaltali kostuðu vörur sem voru markaðssettar fyrir konur eða stúlkur u.þ.b. 7% meira en sambærilegar vörur fyrir karla eða drengi. Þannig var 7% munur á leikföngum og öðru slíku, 4% munur á klæðnaði barna, 8% munur á klæðnaði fullorðinna, 13% munur á hreinlætisvörum eins og sápum og kremum. Ég geri mér grein fyrir því að oft er talað um að við konur eldumst betur en karlarnir og kannski eru það þessi ofboðslega dýru og góðu krem og hreinlætisvörur sem við notum. Ég leyfi mér samt að efast um að það réttlæti 13% mun þarna á. Sömuleiðis var 8% munur á vörum sem eru ætlaðar eldri borgurum, sem er alveg furðulegt. Maður hefði haldið að ekki væri mjög mikill munur á okkur þegar við erum orðin fullorðin og komin á öldrunarheimili.

Það er líka áhugavert að skoða — og ég mæli með því að þið skoðið þessa áhugaverðu rannsókn — muninn á klæðnaði. Einn framleiðandi lagði meira á föt fyrir konur í yfirstærð en karla. Væntanlega fer álíka mikið efni eða jafnvel meira í að klæða karl í yfirstærð en konu. Það var jafnvel enginn munur á sniði eða öðru á þessum klæðnaði en samt munaði 12–15 dollurum sem er algjörlega klikkað. Munurinn á verði á pelum fyrir börn hefur oft verið tekinn sem dæmi í fjölmiðlum, á pelum sem voru nákvæmlega eins fyrir utan litinn, annar var bleikur en hinn blár. Sá bleiki kostaði meira en sá blái. Er bleika litarefnið svona miklu dýrara? Eitthvað hlýtur það að vera. Ef svo er held ég að það væri skynsamlegt að við færum að skipta um lit og hættum einfaldlega að nota þessa liti yfir höfuð til að aðgreina kynin. Það er náttúrlega löngu úrelt. Ég get nefnt fleiri dæmi og það sem sló mig kannski mest var að það var 48% munur á verði á sjampói og hárnæringu fyrir karla og konur. Ég veit að við konur leggjum mjög mikinn metnað í að vera með fallegt hár og allt það en ég veit ekki betur en að fjölmargir karlmenn hafi þann metnað sömuleiðis. Maður getur ekki ímyndað sér að það sé einhver önnur ástæða fyrir þessum verðmun en sú að annað er ætlað konum og hitt körlum.

Þetta er nokkuð sem við verðum að breyta. Við þurfum einhvern veginn að taka á þessum verðmun í samfélaginu. Við getum náttúrlega stigið skrefið og verið til fyrirmyndar hvað það varðar með því að útrýma úr íslenskri löggjöf þeim þáttum sem valda þessu, þar sem hreinlega er verið að mismuna kynjunum, eins og lagt er til í breytingunni hérna.

Það er fleira sem mig langaði að koma inn á. Finnst okkur raunverulega í lagi að kynjunum sé mismunað svona mikið? Þetta er ekki eina dæmið um mismunun kynjanna eins og við vitum. Í ofanálag við það að þurfa að borga meira fyrir þær vörur, meira að segja nauðsynjavörur, sem konur kaupa — þær eru verðlagðar hærra — fáum við lægri laun. Þó að sannarlega hafi verið stigin mjög jákvæð og mikilvæg skref hér á landi, og við raunar verið til fyrirmyndar í heiminum hvað varðar löggjöf sem tryggir jöfn laun, er staðreyndin samt sem áður sú að rannsóknir sýna að konur eru enn með lægri laun en karlar. Við þurfum greinilega stöðugt að vera á tánum hvað það varðar. Auðvitað hefur markaðslögmálið þessi áhrif. Konur virðast greinilega hafa meiri greiðsluvilja eða eru einhverra hluta vegna háðar þessum vörum og telja því ekki eftir sér að greiða hærra verð fyrir þær. Það er óásættanlegt, frú forseti, og ég ítreka að við erum líka á lægri launum. Að lokum verður þetta til þess að við höfum minna á milli handanna um hver mánaðamót en karlmenn og það finnst mér óásættanlegt.

Mögulega eru það svokölluðu markaðslögmálin sem valda þessu. Markaðurinn grípur það að konur eru greinilega tilbúnar til að borga þetta mikið fyrir vöru en karlmennirnir eru kannski, ég ætla ekki að nota orðið skynsamari, ekki tilbúnir til að greiða jafn mikið og grípa jafnvel ávallt þá vöru sem er á lægsta verðinu. En á meðan enginn kvartar, meðan enginn gerir athugasemdir, er spurning hvaða hvata fyrirtæki hafa til að breyta hlutum. Þess vegna skiptir gríðarlega miklu máli að það sé umræða og meðvitund í samfélaginu um það þegar tilvik af þessu tagi koma upp. Með tilkomu Facebook, sem var töluvert mikið rædd hér áðan, hafa tækifæri til aukins aðhalds og aukinnar neytendaverndar aukist gríðarlega. Ég get nefnt nokkra hópa á Facebook, þar sem ég er, þar sem fólk bendir á góð tilboð og annað slíkt en líka á dæmi af þessu tagi sem ganga það langt að þau ganga fram af fólki. Sem betur fer, þegar bent hefur verið á slíkt, hafa verslanir stundum brugðist skjótt við og jafnvel sagt að um mistök hafi verið að ræða og leiðrétt þau. Ég man sérstaklega eftir einu dæmi um reiðhjólahjálma sem voru nákvæmlega eins fyrir utan litinn, annar var bleikur og hinn blár. Þar var brugðist hratt við og þetta var leiðrétt og sama verð sett á báða hjálmana. Þetta sannar enn og aftur hve miklu máli skiptir að vera með virka neytendavernd og að við reynum að vekja almenning til aukinnar meðvitundar um að láta ekki bjóða sér verðlagningu af þessu tagi, svona mismun á verðlagningu án nokkurrar ástæðu. Þannig er hægt að skapa þrýsting á þá aðila sem um ræðir, þ.e. seljendur og framleiðendur.

Það er ótrúlega áhugavert að eftir alla umræðuna sem hefur verið í gangi um rétt kynjanna, sérstaklega réttindi kvenna, viðgangist þetta enn í íslensku samfélagi. Auðvitað langar mann oft að spyrja af hverju það sé. Hvað veldur því að þetta viðgengst enn í dag? Kannski er það út af því að við erum svolítið að horfa á stóru myndina. Við erum að horfa á stöðu kynjanna á vinnumarkaði, við erum að horfa á stöðu kynjanna í menntakerfinu og við erum að horfa á stöðu kynjanna á fjölmörgum sviðum. Þá gleymum við oft þessum smáu hlutum sem skipta samt svo miklu máli undir niðri.

Eins og Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands, hefur bent á þarf maður líka stundum að horfa á stóru myndina. Stundum heldur maður að um tilviljun sé að ræða, að einungis sé um þetta eina dæmi að ræða. Þá þarf maður einmitt að gera eins og New York borg gerði, taka mikinn fjölda og kanna verð og athuga. Er þetta einstakt dæmi eða er þetta skipulegur og kerfisbundinn halli á konur? Það hallar reyndar á karlmennina hvað verðið varðar, verðið er lægra til þeirra. Maður áttar sig ekki á þessu fyrr en maður fer að skoða stóru myndina og sér mynstrið. Þá áttar maður sig á því að þetta er engin tilviljun. Þess vegna skiptir gríðarlega miklu máli í öllu þessu að ríkið komi að málum og lagfæri hjá sér það sem augljóslega þarf að lagfæra eins og við gerum með samþykkt þessa frumvarps. Við þurfum líka sífellt að vera að skoða okkar löggjöf út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum. Það kom mér t.d. nokkuð á óvart, frú forseti, þegar ég var að skoða lög um hjúskaparlöggjöfina að sjá þar eingöngu talað um tvíkvæni. Ég hefði haldið að það væri eingöngu ef karlinn giftist tveimur konum og velti því fyrir mér hvort það þýði að konur megi eiga fleiri en einn karl. Ég er reyndar ekki viss um að ég myndi leggja í það, satt best að segja. Samt sem áður er mjög áhugavert að sjá dæmi um þetta. Þó að síðar í löggjöfinni sé sannarlega talað um bæði karla og konur er orðið tvíkvæni samt alltaf notað en minn málskilningur er sá að það orð sé eingöngu notað ef karlmaður á fleiri en eina konu. Þessi dæmi sýna að við þurfum stöðugt að vera vakandi og gera okkar besta til að bregðast við sýnilegum hlutum eins og um ræðir hér, þ.e. að nauðsynlegar hreinlætisvörur og sömuleiðis getnaðarvarnir fyrir konur séu ekki óaðgengilegar vegna þess skatts sem ríkið leggur á þær.

Að lokum langar mig að nefna að um er að ræða mikilvægar vörur eins og getnaðarvarnir. Það er mikilvægt hvað varðar kynheilbrigði Íslendinga að aðgengi að getnaðarvörnum sé gott, ég tala nú ekki um í ljósi þeirrar umræðu sem er nýafstaðin á þingi um þungunarrof. Besta leiðin til að fækka þungunarrofum er auðvitað að hafa gott aðgengi að getnaðarvörnum þannig að hægt sé að byrja þar. Sem betur fer hefur margt breyst en staðreyndin er samt sem áður sú að við höfum séð aukna tíðni á kynsjúkdómum eins og t.d. klamýdíu.

Þó að þetta sé kannski ekki stór peningur í heildarsamhenginu skiptir þetta máli fyrir einstaklingana. Ég hlýt því að fagna því að þetta mál hafi komið fram og hlakka svo sannarlega til að greiða atkvæði með því og sannarlega einnig með þessum ágætu breytingum meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Ég held að ég hafi náð að fara nokkurn veginn yfir mína helstu punkta í málinu og læt þetta duga í bili.