149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

virðisaukaskattur.

52. mál
[16:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp um breytingar á lögum um virðisaukaskatt sem varðar tíðavörur og getnaðarvarnir. Frumvarpið er tiltölulega einfalt, þ.e. að virðisaukaskattur á tíðavörum og getnaðarvörnum falli í lægra virðisaukaskattsþrep. Flóknara er það nú ekki. Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar eru lagðar fram breytingar sem útvíkka tillöguna til að hún geti betur náð yfir allar þær vörur sem þarf til og er það að tillögu tollstjóra, að mér skilst. Fjórar umsagnir bárust um málið og er eindreginn stuðningur við málið í öllum þeim umsögnum, kannski ekki við öðru að búast enda frekar sjálfsagt mál. Ég ætla aðeins að fara betur út í hversu sjálfsagt það er og hvers vegna það skiptir máli að við áttum okkur á því að það sé sjálfsagt en það hafi samt beðið þar til nú.

Ég verð fyrst að nefna ágæta tillögu sem kemur fram í umsögn Femínistafélags Háskóla Íslands. Sú tillaga felur í sér breytingu á reglugerð umhverfisráðuneytisins um hollustuhætti, breytingu á hugtakinu „fullbúin snyrting“. Í dag er hún skilgreind á þann veg að um sé að ræða sérstakt snyrtiherbergi með vatnssalerni og handlaug með heitu og köldu vatni, spegli, sápu og handþurrkum. Femínistafélag Háskóla Íslands leggur til að þarna verði bætt við einnota tíðavörum þannig að fullbúin snyrting sé sérstakt snyrtiherbergi með vatnssalerni og handlaug með heitu og köldu vatni, spegli, sápu, salernispappír, einnota tíðavörum og handþurrkum. Mér finnst sú tillaga mjög góð og vona að umhverfisráðherra taki eftir þessari ábendingu og breyti reglugerðinni í þá átt. Þar sem um reglugerð er að ræða getur frumvarpið ekki kveðið á um þá breytingu heldur þarf hún að koma frá ráðherra, nema ef setja ætti það í landslög en ég tel það óþarfa. Þetta er atriði sem á bara heima í reglugerð en gjarnan mætti uppfæra hana með þessum hætti.

Eins og margir hafa nefnt er þetta mjög sjálfsagt mál og það er í raun skrýtið að þetta mál hafi ekki verið samþykkt nú þegar og fyrir löngu. Mig langar aðeins að rekja ástæðuna. Mér finnst mikilvægt í miklu víðara samhengi en í þessu máli að við áttum okkur á því hvers vegna það er. Ástæðan fyrir því að þessar tíðavörur og getnaðarvarnir fyrir konur hafa lent í efra virðisaukaskattsþrepi er að mínu mati einkenni karlrembusamfélagsins. Þá er alveg þess virði að spyrja hvað átt sé við með samfélagi. Ég hef ekki gaman af umræðum um skilgreiningar á orðum almennt, mér finnst orðsifjafræði mjög leiðinleg en í þetta sinn finnst mér hún mikilvæg. Hvað eigum við við með hugtakinu samfélag og hvað þá þegar talað er um persónueinkenni þess samfélags? Ég lít þannig á að samfélagið sé einhvers konar persóna, einhvers konar meðaltal af því hvernig samfélagið kemur fram við aðrar stofnanir, aðra hópa og einstaklinga. Þar er mikilvægt að hafa í huga að samfélagið getur haft ýkt einkenni eða önnur einkenni en einstaklingarnir innan þess. Sem dæmi getur karlremba samfélagsins brotist fram í alls konar tölfræði og óréttlæti sem enginn talar raunverulega fyrir eða beitir sér fyrir. Með öðrum orðum: Óréttlætið gerist óvart. Það gerist ekki vegna þess að einstaklingarnir séu í sjálfu sér karlrembur eða séu að gera eitthvað slæmt heldur kannski af pínulitlu hugsunarleysi og tillitsleysi hjá öllum. Þegar þetta tillitsleysi eða hugsunarleysi endurspeglast í ákvörðunum eða kannski hlutfalli kvenna á þingi eða eitthvað því um líkt getur skekkjan birst jafnvel þótt einstaklingarnir sem tóku ákvarðanirnar séu í sjálfu sér ekki karlrembur.

Með karlrembum samfélagsins á ég ekki endilega við einstaklinga sem eru karlrembur en þegar meðaltal af ákvarðanatöku og viðhorfum er tekið saman og við setjum inn eitthvert hugtak sem heitir samfélag og gefum því hugtaki persónueinkenni hefur það samfélag persónueinkenni karlrembu. Ég tel þetta eiga við í meira eða minna öllum málum. Við getum séð mynstur. Ég nefndi hlutfall kvenna á Alþingi eða hlutfall kvenna í forstjórastöðum, eitthvað því um líkt, sem einkennir mjög stór samfélög og einkenni stofnana, án þess að neinn hafi tekið sig til og ákveðið að konur skyldu vera færri á þingi eða konur skyldu síður vera forstjórar eða að gildin og viðhorfin og hegðunin sem leiðir e.t.v. til forstjórastöðu eða æðri stöðu þurfi að einkennast af týpískum testósteron-gildum sem ég ætla að láta í friði að lýsa í of miklum smáatriðum, a.m.k. í bili. Þetta leggur okkur þá kröfu á herðar að við fylgjumst með persónueinkennum sem við erum mótfallin, t.d. karlrembu, frekju og yfirgangi, einhverju því um líku, sem við sjáum í samfélaginu þótt við sjáum þau ekki í persónueinkennum einstaklinganna sem taka ákvarðanir. Með öðrum orðum verðum við að muna að vera sjálfsgagnrýnin og átta okkur á því að við getum tekið karlrembulegar ákvarðanir án þess að vera karlrembur sjálf. Konur geta það líka. Þetta krefst þess að við getum nálgast svona málefni af ákveðinni auðmýkt og við getum ekki látið eins og við séum einfaldlega ekki rasistar eða ekki karlrembur og þar af leiðandi þurfi ekki að pæla í þessu. Það virkar ekki þannig. Þannig fá rasismi og karlremba að blómstra frekar vel. Við þurfum markvisst og meðvitað að tileinka okkur viðhorf til þess að berjast gegn þessum áhrifum í okkar eigin ákvörðunum og okkar eigin nálgun á málefnin, hvort sem við köllum okkur rasista, karlrembur eða eitthvað annað — eða ekki.

Sömuleiðis er mjög mikilvægt í allri réttindabaráttu að við lítum ekki svo á að það sé hlutverk hvers einkennahóps að berjast fyrir sínum eigin hagsmunum fyrst og fremst. Ég verð að segja að mér finnst ágætt að sjá marga karlmenn á mælendaskrá í þessu máli og að flytja málið. Ég er sjálfur þeirra á meðal, en þetta mynstur sést ekki alltaf. Sum femínistafélög eru næstum því bara skipuð konum og mér finnst það mynstur alltaf pínulítið sorglegt, ekki vegna þess að ekki megi vera konur í femínistafélögum heldur finnst mér það einkenni þess að mannkyn sé ekki nógu duglegt við að standa saman að réttindum sem varða okkur öll í stóra samhenginu. Við erum ekki nógu dugleg, finnst mér, sem hópur að berjast fyrir réttindum hver annars.

Þótt það sé ekki nálægt dæmi finnst mér mjög mikilvæg lexía fólgin í borgarastríði Bandaríkjanna, sem er reyndar afskaplega merkileg saga ef út í það er farið. Í dag er eiginlega ekki hægt að tala um svart fólk og hvítt fólk eins og gert var í denn. Í fyrsta lagi eru þetta ekki litirnir sem fólkið ber á húð sinni og í öðru lagi eru kynþættir ekki svona skýrir. Þetta er ekki svona svart og hvítt, ef ég má leyfa mér það orðalag, en sú var tíðin að það var eiginlega alveg hægt að skipta fólki niður í svart eða hvítt, annaðhvort svarta eða hvíta menn. Þegar ég tala um menn í þessum skilningi á ég augljóslega við konur líka. Ef við leyfum okkur það, fyrir það sögusvið Bandaríkjanna, var svart fólk þrælar, hvítt fólk var ekki þrælar. Hvítt fólk naut ofboðslega mikils frelsis og frelsi var eitt af lykilhugtökunum í bandarískri stjórnsýslu, hugmyndafræði, jafnvel trúarbrögðum. Auðvitað var þetta fyrst og fremst frelsi fyrir hvíta karlmenn, konur fengu ekki sama vægi í samfélaginu og allt það. En sérstaklega var munurinn á milli hvítra og svarta. Svartir voru beinlínis þrælar.

Mótsögnin við bandaríska hugsjón er svo áberandi, borðleggjandi og augljós. Það er þvílíkur fnykur af henni, sem var vel þekktur þegar Bandaríkin urðu til. Það var aldrei sátt í bandarísku samfélagi um þrælahald svartra. Svo kom sú tíð að það þurfti að fara að útkljá þessa spurningu um þrælahaldið þegar Bandaríkin voru að stækka og fleiri ríki að verða hluti af Bandaríkjunum. Það varð þannig að hið svokallaða suður, suðurhluti Bandaríkjanna, sá fyrir sér að með því að fleiri ríki væru tekin inn í bandalagið, Ameríkubandalagið, myndi þrælahald líða undir lok og það myndi rústa efnahag Suðurríkjanna. Þau lýstu því yfir sjálfstæði og fóru í stríð við norðrið. Það er stundum sagt, ranglega, að borgarastríðið í Bandaríkjunum hafi í raun ekki snúist um þrælahald heldur efnahag og eitthvað svoleiðis. Það er rangt, það snerist um fleiri hluti. Öll stríð eru flókin. Og það er rétt líka að norðrið barðist ekki til að frelsa þræla, norðrið barðist til að halda bandalaginu saman en suðrið barðist fyrir þrælahaldi. Það var ástæðan fyrir því að suðrið barðist.

Ástæðan fyrir því að ég er að fara í þessa óþarflega löngu söguskýringu er sú að það þurfti hvíta karlmenn til að berjast fyrir frelsi svarts fólks eins og það var kallað þá og við köllum ekki svo lengur. Mér finnst þetta ofboðslega mikilvægur punktur vegna þess að nú til dags er t.d. í Bandaríkjunum, hjá forsetaembættinu þar, oft rík áhersla á að einhverjir hópar, og þá sér í lagi meirihlutahópurinn, sá sem er stór og sterkur og nýtur forréttinda, eigi að setja sjálfa sig í fyrsta sætið. Og þá er stutt í alls konar landráðatal og „superiority“-komplexa — fyrirgefðu, virðulegi forseti, íslenska þýðingin bara datt úr mér í augnablikinu — sem er hræðileg þróun og ætti að vekja ótta fólks. Mannlegt samfélag getur einungis þróast ef það áttar sig á því að þegar allt kemur til alls erum við í þessu brölti saman, konur og karlar og svartir og hvítir og bleikir og bláir og alls konar. Alveg sama hvaða einkenni við höfum, hvort sem þau eru líkamleg eða andleg, erum við þegar allt kemur til alls í þessu brölti saman.

Mér finnst það ekki endurspeglast í þessum skýru mynstrum í femínistafélögum, að þau séu einungis með konum. Mér finnst að í heimi sem væri með þetta á hreinu ætti að vera svipað hlutfall karla og kvenna í öllum femínistafélögum. Hlutfall hörundsdökkra og hörundsljósra ætti að vera svipað í öllum félögum eða hópum sem væru í því að bæta hag og vernda réttindi kynþáttaminnihlutahópa. Kristnir ættu ekki bara að gæta réttinda kristinna hagsmuna og múslimar réttinda sinna, guðleysingjar ættu líka að vera í því — og allir. Við eigum bara alltaf öll að verja réttindi og hagsmuni okkar allra. Því miður er heimurinn þannig að það þarf stundum að forgangsraða eitthvað. Við erum t.d. með íslenskt þjóðríki og erum kjörin af íslensku þjóðinni til þess að gæta íslenskra hagsmuna. Heimurinn er ekki alveg svona klipptur og skorinn. Ef við ætlum að setja okkur útópíu skulum við setja okkur þá útópíu að við séum í þessu saman. Stefnum að þeim draumi og stefnum í átt frá þeirri martröð sem er andstaðan.

Nú finnst sumum ég kannski vera kominn frekar vítt um efnið en punktur minn er sá að þetta mál er sjálfsagt út frá þessum gildum. Við ættum að vera löngu búin að þessu. Þetta hefði aldrei átt að gerast til að byrja með. Ég er ekki viss um að það hafi bara verið karlrembur sem ákváðu að tíðavörur og getnaðarvarnir kvenna skyldu vera í efra virðisaukaskattsþrepinu. Ég efast stórlega um að það hafi verið hugsað út í það yfir höfuð. Ég held reyndar að það sé nákvæmlega þannig sem það hafi gerst. Og í því felst viðvörunin, við verðum að tileinka okkur hagsmunagæslu hvert annars, annarra hópa. Við eigum ekki alltaf að setja okkur sjálf eða fólk sem deilir okkar líkamlegu eða andlegu einkennum í fyrsta sætið, eins og það sé endilega röð. Þegar kemur að réttindum er nóg af réttindum handa öllum. Það þurfa ekki að vera forréttindi. Það þarf ekki að vera munur á því hvaða réttindi fólk hefur gagnvart lögum eða sköttum. Það er algjör óþarfi. Það er ótæmandi auðlind og við þurfum ekkert að setja einhverja einkennahópa í fyrsta eða annað sæti þar. Við eigum bara öll að vera saman í fyrsta sætinu.