149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

virðisaukaskattur.

52. mál
[16:20]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt sem í grunninn eru frá árinu 1988 en þeim hefur verið breytt alloft. Við fjöllum hér um sérstakan, afmarkaðan og vel skilgreindan þátt, tíðavörur og getnaðarvarnir.

Þrátt fyrir að við höfum fjallað um þetta efni og breytingar á virðisaukaskatti nokkrum sinnum hefur þetta ekki náð fram að ganga til þessa þó að mig reki minni til þess að þetta hafi verið til umfjöllunar. Við erum að stíga gott skref. Við erum að stíga skref til aukins jafnræðis og ég leyfi mér að segja að við sýnum með þessu virðingu fyrir öðru fólki óháð kyni.

Ég tel einsýnt að lækkun á virðisaukaskatti samkvæmt þessari tillögu í frumvarpinu muni stuðla að aukinni lýðheilsu. Það er augljóst að skattur á tíðavörur leggst eingöngu á konur og því mikil mismunun í þessu fólgin, mismunun sem ekki er gott að átta sig á hvers vegna hafi fengið að þrífast svo lengi.

Það er líka heilbrigðismál að aðgengi að getnaðarvörnum sé gott og þær á viðráðanlegu verði. Eins og kom vel fram hjá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni á það vitaskuld að vera óháð því af hvaða kyni við erum.

Það er nefnilega þannig að í núgildandi lögum um virðisaukaskatt falla smokkar í lægra þrep virðisaukaskatts. Það er auðvitað dapurlegt að það sama eigi ekki við um allar tegundir getnaðarvarna, heldur einungis þær sem aðallega beinast að körlum. Í breytingafrumvarpinu er því stigið jákvætt skref í jafnræðisátt sem á ekki að vera tiltökumál, eins og ég nefndi fyrr.

Þeir umsagnaraðilar sem sendu inn umsagnir um frumvarpið voru allir sammála og fögnuðu því að þessar vörutegundir yrðu settar í lægra virðisaukaskattsþrep og telja allir að þetta muni hafa jákvæð áhrif á kynheilsu Íslendinga. Sérstaklega mun þetta hafa jákvæð áhrif á konur þar sem flestum tegundum getnaðarvarna er beint að þeim. Eins og kom fram í ágætri ræðu hv. þm. Albertínu Friðbjargar Elíasdóttur hafa markaðsöflin aldeilis náð sér á strik þar sem þær vörutegundir eru annars vegar. Það sér maður með því einu að ganga um stórmarkaði og fylgjast með fjölmiðlum þar sem þetta er mjög auglýst og sláandi að þessar vörur eru fjárhagslega íþyngjandi fyrir konur.

Tíðavörur eru nauðsynjavörur fyrir flest fólk sem fer á blæðingar og notkun þeirra er hvorki lúxus né val. Það er því eðlilegt að tíðavörur flokkist ekki í efsta þrep virðisaukaskatts og ættu jafnvel að vera undanþegnar virðisaukaskatti. Um þetta fjalla stjórnvöld í öðrum löndum og hafa farið ýmsar leiðir, ýmist lækkað eða afnumið virðisaukaskatt á tíðavörum í því augnamiði að auka jöfnuð og afnema það sem við verðum auðvitað að telja að séu ómálefnaleg útgjöld þeirra sem fara á blæðingar.

Í ýmsum löndum Vesturlanda hefur komið í ljós að hin svokallaða túrfátækt, „period poverty“, með leyfi forseta, er orðin þekkt hugtak, þ.e. þegar konur eða stúlkur verða fyrir svo miklum áhrifum vegna þessa að þær geti ekki sinnt t.d. skóla eða störfum vegna þess að þær hafa ekki efni á að afla sér þessarar vörutegundar. Þetta þekkja menn í Bretlandi þar sem menn telja að allt að 10% af konum tefjist í námi og starfi vegna þess að þær eru frá störfum vegna þessa vanda. Það er engin ástæða til að ætla annað en að svipað sé upp á teningnum á Íslandi í rauninni.

Ég hef fjallað um þetta frá mínum sjónarhóli af veikum mætti en ég tel þó af góðum vilja. Við höfum fylgst með því í áranna rás að á þessu sviði hefur orðið nokkur þróun til þæginda fyrir konur. Við þekkjum hugtakið álfabikar, sem lagt er til að verði breytt í tíðabikar. Það er margnota búnaður sem konur eiga og hefur verið í notkun í áraraðir. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson nefndi í sinni góðu yfirferð að við þyrftum að huga að ýmsum þáttum, m.a. endurskoðun á reglugerðum um hollustuhætti og taka tillit til þeirra þátta í skilgreiningu á því hvað teljist vera fullbúin eða fullboðleg aðstaða fyrir snyrtingar og snyrtiherbergi, hvort sem það er á opinberum stöðum eða á vinnustöðum. Það er nú viðtekið að tíðavörur eru nauðsynlegar hreinlætisvörur sem aðgengilegar ættu að vera á öllum snyrtingum, hvort sem það er gegn gjaldi eða ekki.

Virðulegur forseti. Það er kannski ekki ástæða til að fjölyrða meira um þetta efni að sinni. Samfylkingin styður auðvitað framgang þessa máls og telur það vera jafnréttismál, lýðheilsuverkefni og skref til þess að auka jafnræði og hafa líka yfirbragð virðingar.