149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

virðisaukaskattur.

52. mál
[16:48]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta góða mál. Það er einfaldlega mjög gott og var ekki flókið í framkvæmd. Þrátt fyrir að þessari hugmynd hafi gjarnan verið hallmælt fyrir meint flækjustig reyndist þegar á hólminn var komið ákaflega einfalt að hrinda henni í framkvæmd. Þetta er í senn lýðheilsumál en ekki hvað síst brýnt jafnréttismál. Allir þingmenn Viðreisnar styðja það heils hugar.

Ég tek líka undir með ræðumanninum á undan mér, hv. þm. Loga Einarssyni, um að þingmenn stjórnarmeirihlutans séu sammála þó að þeir hafi greinst með talsvert hratt áunnið málstol hér í dag. Þó að ekki hafi verið löng eða mikil umræða um velflest mál hefur meiri hlutinn einhvern veginn horfið héðan úr þingsal og varla tekið til máls í einu einasta máli. En um þetta var mjög góð, þverpólitísk samstaða í efnahags- og viðskiptanefnd og ég hygg að þar séu nær allir nefndarmenn á nefndarálitinu og styðji þar með málið. Ekki er við öðru að búast en að mál þetta hljóti góðan framgang í þingsal og verði samþykkt með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða, sem er vel. Það verður mikið fagnaðarefni þegar við náum þeim áfanga.

Af því að við höfum gjarnan talað um þessa mismunandi flokkun, t.d. á getnaðarvörnum, í efra og neðra virðisaukaþrep, reyndar eru fleiri slík dæmi, sem bleikan skatt væri mjög mikið fagnaðarefni ef verslanir hér á landi tækju sér tak. Við sjáum að verslanir eru að gera ýmislegt að eigin frumkvæði til þess að styrkja ásýnd sína og koma með ábyrgari hætti fram gagnvart neytendum. Ekki síst er það mikið fagnaðarefni að umhverfisvitund verslunarinnar hefur aukist á undanförnum mánuðum. Það væri fagnaðarefni að verslanir tækju höndum saman um að útrýma hinum svokallaða bleika skatti þegar kemur að mismunandi verðlagningu á algjörlega einsleitum vörum sem eru annars vegar markaðssettar gagnvart körlum og hins vegar konum. Mér þykir alltaf jafn merkilegt að horfa t.d. upp á þessa mismunandi verðlagningu á rakvélum til karla og kvenna eftir því hvort þær eru bleikar eða bláar. Við sáum í nýlegri úttekt, sem ég hygg að hafi verið unnin á vegum Stöðvar 2, dæmi um munnskol fyrir börn, Hello Kitty fyrir stúlkur eða Batman fyrir drengi, sem voru mismunandi verðlögð, voru dýrari fyrir stelpurnar, innihaldið ugglaust nákvæmlega hið sama. Mýmörg dæmi má nefna um hið sama.

Það væri fagnaðarefni ef verslunin í landinu tæki höndum saman um að útrýma þessari mismunandi verðlagningu á algjörlega einsleitum vörum og stíga annað skref til viðbótar þessu til að draga úr eða útrýma hinum svokallaða bleika skatti. Svo væri auðvitað að lokum gaman ef meiri hlutinn hér gæti undirstrikað að málið nyti stuðnings meiri hluta þingmanna með því að koma þó ekki væri nema í stuttar ræður því til staðfestingar.