149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

virðisaukaskattur.

52. mál
[16:52]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum að tala um frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, með síðari breytingum (tíðavörur og getnaðarvarnir). Ég er einn af stuðningsmönnum þessa frumvarps, styð það heils hugar og tel það vera eitt lítið skref í rétta átt. Eins og komið hefur fram í umræðunni er virðisaukaskattskerfið hjá okkur svolítill frumskógur og mismunar fólki illa eftir efnahag. Annað sem kom fram er að við erum með næstdýrasta virðisaukaskattskerfi í heimi og er það okkur til skammar. Það er ekki gott. Því lægri tekjur sem fólk hefur og þarf að lifa af, því meiri áhrif hefur virðisaukaskattskerfið á það og þá sérstaklega á þá sem eru á lágmarkslaunum eða lífeyrisgreiðslum. Allir gera sér grein fyrir að þá skiptir hver einasta króna gífurlegu máli.

Við ræddum ekki fyrir svo löngu um þungunarrof og samþykktum ný lög. Þar kom fram sú skelfilega niðurstaða og staðreynd að það eru um 1.000 þungunarrof á hverju ári sem ekki heyra undir læknisfræðilegar ástæður. Ekki er nema um 40 slíkar aðgerðir að ræða sem framkvæmdar voru vegna læknisfræðilegra ástæðna en 1.000 af öðrum ástæðum. Það eitt og sér hefði átt að hringja mörgum bjöllum og gerði það, sérstaklega hjá mér. Ég spurði sjálfan mig og líka hér í þinginu hvers vegna í ósköpunum við hefðum ekki brugðist við og gert eitthvað. Við verðum að átta okkur á því að við erum með einstaklinga í þjóðfélaginu sem eru háðir lyfjum og ýmsum vanabindandi efnum. Þessir einstaklingar munu í fæstum tilfellum kaupa sér getnaðarvarnir eða fá varanlegar getnaðarvarnir. Þess vegna er það eiginlega næsta skref í þessu máli, sem væri auðvitað nauðsynlegt, að lykkjan og aðrar varanlegar getnaðarvarnir væru hreinlega að kostnaðarlausu þeim sem vilja. Mér finnst það eiginlega sjálfsagt. Ef þetta væri fólki algjörlega að kostnaðarlausu, ef viðkomandi gæti bara mætt til læknis og fengið þessa varanlegu getnaðarvörn án nokkurs kostnaðar, trúi ég því statt og stöðugt að þungunarrofum myndi stórfækka.

Við erum að tala um tíðavörur sem eiga auðvitað að vera sjálfsagður hlutur á salernum, sérstaklega myndi ég telja á heilsugæslum og í skólum. Eiginlega á ekkert að vera sjálfsagðara en að á salernum séu sjálfsalar fyrir þá sem þurfa á þessu að halda, og þetta á að vera ókeypis. Við eigum ekki að vera að rífast um það hvort virðisaukaskatturinn á þessum vörum sé of hár eða of lágur eða fyrir hendi yfir höfuð, heldur ætti það að vera næsta skref okkar að sjá til þess að allir sem þurfa á þessum vörum að halda geti fengið þær með aðgengilegum hætti og það ókeypis.

Við erum með ýmsa hluti hér dýra. Virðisaukaskatturinn er sá næsthæsti í heimi. Við þurfum að hugsa svolítið út fyrir rammann um hverjir þurfi nauðsynlega á viðkomandi vörum að halda og geti ekki án þeirra verið. Út frá því eigum við t.d. að takmarka skattinn, eins og virðisaukaskatt og annað. Við getum tekið dæmi. Það er illþolandi að tveir einstaklingar sem eru teknir fyrir of hraðan akstur af lögreglu og fá sekt fái báðir sömu sektina, segjum 100.000 kr. sekt. Annar er með 300.000–400.000 kr. í laun en hinn er kannski með 2–3 milljónir í laun. Hverjum er verið að refsa meira? Auðvitað þeim sem er á lægri launum. Sá aðili fær þar af leiðandi margfalt hærri sekt en hinn launahærri. Þetta fyrirkomulag höfum við úti um allt kerfið hjá okkur. Við erum líka með þetta, sem má kannski snúa á annan hátt, í persónuafsláttarkerfinu. Persónuafsláttur fyrir þann sem er með 200.000–300.000 kr. á mánuði skiptir gífurlegu máli en fyrir þann sem er með 2–3 milljónir er það mjög lítill hluti af hans framfærslu.

Það er líka spurning hvernig við eigum að haga fræðslu í sambandi við getnaðarvarnir. Þar koma líka inn þessi 1.000 þungunarrof sem eru framkvæmd á hverju ári. Við erum að tala um þrjú til fjögur þungunarrof á dag og það segir okkur að það er eitthvað að, líka hvað varðar fræðslu. Það er því mjög mikilvægt að við stóreflum fræðslu í skólum og gerum á sama tíma getnaðarvarnir aðgengilegri. Þá verði líka strax val um að fá varanlegar getnaðarvarnir sem duga í ákveðið langan tíma og að þær verði ókeypis. Það er líka spurning að yfir höfuð séu bara allar getnaðarvarnir til staðar fríar fyrir þá sem vilja. Ég gæti vel ímyndað mér að það yrði ekki svo dýrt og ég held að það myndi alveg pottþétt skila sér fyrir þjóðfélagið. Það er með ólíkindum að við skulum t.d. ekki vera með betri aðgang. Við gætum t.d. gefið mun betri aðgang og nýtt okkur ofboðslega vel hinn nýja vef heilsuvera.is sem er frábært framtak. Ég ætla enn einu sinni að hvetja fólk til að skoða hann vegna þess að þar er hægt að fara inn og vera á rauntíma, liggur við, í sambandi við lækni. Við vitum að ungt fólk er mjög vel tölvutengt í gegnum síma og á því mjög auðvelt með að komast inn á þennan vef. Þarna væri líka hægt að sjá til þess að með einum slætti á símann væri hægt að fá getnaðarvarnir eða tíðavörur frítt og sérstaklega þarf að byrja á að koma því þannig fyrir að allar heilsugæslustöðvar, hvar sem er, bjóði þessar vörur án greiðslu.

Við erum ekki alveg komin nógu langt í því að aðstoða þá sem þurfa á að halda og við erum einhvers staðar í einskismannslandi. Við höfum gleymt okkur. Við höfum gleymt okkur í því að framkvæma, myndi ég segja, erfiðustu lausnina. Við erum búin að sætta okkur við þá erfiðustu lausn sem hægt er og þá skelfilegustu, það er í sambandi við þungunarrofin, að það sé einhvern veginn auðvelt og sjálfsagt. En við gleymdum að byrja á réttum enda, að byrja á því að sjá til þess að enginn þurfi að fara í þungunarrof. Það hlýtur að vera, eins og ég hef áður sagt, skelfilegasta ákvörðun sem til er að þurfa að fara af stað og ætla sér að fara í það ferli að eyða lífi.

Okkur ber skylda til að finna allar leiðir áður og sjá til þess að enginn, helst enginn, nema í allra brýnustu nauðsyn, þurfi að velja þann farveg að fara þessa erfiðu leið. Til þess er, eins og ég segi, fyrsta skrefið þetta frumvarp. Hvernig í ósköpunum stendur á því að þessar vörur hafa borið hærri virðisaukaskatt en margar aðrar vörur sem minni þörf er á? Hvernig í ósköpunum fórum við að því að búa til svona kerfi? Það segir okkur að það er fullt af öðrum vörum sem hið sama gildir um. Við verðum að taka virðisaukaskattskerfið algjörlega til endurskoðunar og sjá til þess að lífsnauðsynlegar vörur, vörur sem fólk þarf til daglegs brúks til að lifa eðlilegu lífi, séu ekki skattlagðar þannig að það mismuni fólki vegna fjárhags. Vegna bágs fjárhags verður fólk kannski að velja. Hef ég efni á þessari vöru eða ekki? Það segir sig sjálft að einstaklingur sem er á lífeyrisbótum frá Tryggingastofnun ríkisins, sem eru rúmlega 212.000 kr., og þarf að borga leigu, 165.000 kr., og síðan alls konar önnur gjöld, á ekki mikið eftir. Ég þekki til þess að einstaklingar megi þakka fyrir að eiga 500 kr. til matarkaupa á dag. Hvernig í ósköpunum á sá einstaklingur að fara að því að kaupa aðrar nauðsynjavörur sem hann þarf á að halda? Það segir sig sjálft að hann byrjar á mat, hann getur ekki annað gert en að nota þennan litla pening í matarkaup og verður þar af leiðandi að hafna öðru, þar á meðal þeim sjálfsögðu mannréttindum að geta leitað sér lækninga, farið til læknis, keypt lyf og borgað þau.

Þetta er það sem við er að eiga. Við erum að stíga hænuskref til að sjá til þess að fólk hafi efni á þessum vörum. En við verðum að ganga mun lengra. Þó að þetta frumvarp sé mjög gott skref í eina átt er það ekki lausn fyrir alla. Við þurfum þess vegna að gera allt sem við getum til að finna lausn á því þannig að allir geti fengið nauðsynjavörur, bæði þessar og aðrar sem við erum að tala um, þannig að fjárhagur eða of naumt skammtaður lífeyrir og bætur frá ríkinu valdi því ekki að fólk neiti sér um sjálfsagða hluti sem öllum öðrum, þeim sem hafa það gott í þessu samfélagi, finnst sjálfsagt að geta nálgast.