149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

virðisaukaskattur.

52. mál
[17:08]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að mér líður aðeins eins og nú sé kannski árið 1965 þegar hér kemur hver roskinn karlmaðurinn á fætur öðrum og tjáir sig um málefni kvenna og kvenlíkamans á mjög yfirgripsmikinn hátt og jafnvel óvæntan. Ég er einn af þeim.

Ég er fyrst og fremst hingað kominn til að fagna þessu máli og lýsa heils hugar yfir stuðningi við það. Ég tek þó ekki undir það sem kom fram í ræðu áðan hjá hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni þar sem hann setti þennan varning í samhengi við nýlegt mál um þungunarrof. Mér finnst það ekki alls kostar makleg samlíking eða tenging að öðru leyti en því að hér er um að ræða starfsemi kvenlíkamans og um það að ræða að konan hafi sjálf stjórn yfir þeirri starfsemi líkama síns og viti best hvernig sú starfsemi er. Ef hv. þingmaður vill láta að því liggja að konur líti almennt svo á að þungunarrof komi að einhverju leyti í stað getnaðarvarna tel ég það á miklum misskilningi byggt og lýsa bæði vanþekkingu á því hvað sú aðgerð hefur í för með sér fyrir konur og hvað hún þýðir fyrir þær sem og vanþekkingu á hlutskipti þeirra kvenna sem undir slíka aðgerð gangast.

En ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það.

Það er eiginlega með nokkrum ólíkindum að við séum að ræða þetta mál á því herrans ári 2019 vegna þess að manni finnst það hálfgerð forneskja að slíkur varningur sé enn þá skattlagður á þennan hátt og löngu tímabært að fallast á að ekki sé um að ræða einhvers konar lúxusvarning eða óþarfan varning sem beri að skattleggja sem slíkan. Í sumum samfélögum er það svo, eins og hv. þm. Logi Einarsson vék að áðan, að út af hugmyndafræði og trúarbrögðum sem eru mannfjandsamleg er litið á konur sem hafa á klæðum, eins og það heitir, eins og þær séu á einhvern hátt óhreinar, þær séu ekki í húsum hæfar og eigi jafnvel að vera einhvers staðar hafðar í einangrun. Í núverandi skattlagningu finnst mér eima eftir af einhvers konar slíku viðhorfi til þeirra mála.

Fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni, hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, skrifar undir nefndarálitið með fyrirvara. Það táknar ekki að hún styðji ekki frumvarpið því að það gerir hún, en hún vill hins vegar leggja áherslu á það með fyrirvara sínum, sem hún mun eflaust gera grein fyrir við 3. umr. þessa máls, að endurskoða þurfi virðisaukaskattskerfið í heild sinni. Hún bendir á að eftir því sem undantekningum fjölgar á kerfinu, þeim mun flóknara verður það. Þá vakna alls konar spurningar um af hverju ekki þetta og af hverju ekki hitt. Hún vill leggja áherslu á það almenna sjónarmið að virðisaukaskattskerfið sé ekki gott jöfnunartæki heldur sé betra að gera slíkt í gegnum tekjuskattskerfið.

Ég held að ég hafi þá að mestu lokið erindi mínu í þennan ræðustól. Ég hef gert grein fyrir fyrirvara hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur og tel mig hafa gert grein fyrir viðhorfum mínum til málsins. Ég endurtek að að mínu mati er um að ræða mikið og gott hagsmunamál. Þetta er mjög mikilvægt jafnréttismál og lýðheilsumál.